Að færa gistingu í hærra virðisaukaskattþrep mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi að mati Daníels Jakobssonar hótelstjóra á Hótel Ísafirði og formanns Ferðamálasamtaka Vestfjarða.
„Ef ég tala bara út frá mínu fyrirtæki þá hefur launakostnaður hækkað um 20 prósent síðan 2015 og launakostnaður er helmingur af okkar útgjöldum. Evran hefur lækkað um 30 prósent á tímabilinu en 60 prósent af okkar tekjum eru í evrum og svo var gisting færð úr 7 prósent virðisaukaskatti í 11 prósent. Ef ríkisstjórnin ætlar að hækka virðisaukann um 100 prósent er alveg ljóst að við þurfum að hagræða í rekstri og það þýðir bara að draga úr þjónustu. Við getum ekki komið þessu út í verðlagið,“ segir Daníel.
Með minni þjónustu á hann við að í dag er vetraropnun hótelsins greidd niður með tekjum sumarsins og með því næst að halda úti heilsársstörfum en á því kann að vera breyting með versnandi afkomu.
Daníel, sem er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ, undrast að sjá þessar tillögur koma frá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins. „Ég hef ekki heyrt nokkurn mann í mínum flokki eða hægra megin í pólitíkinni tala um að hækka álögur á útgerðina núna þegar krónan er í styrkingarfasa. Þvert á móti og skýrasta dæmið er Teitur Björn Einarsson sem talar fyrir lækkun veiðigjalda nú þegar krónan hefur styrkst svona mikið, sem ég reyndar tek undir honum með.“
Að sögn Daníels getur það verið langtímamarkmið að koma gistingu í hærra skattþrep en segir tímasetninguna eins slæma og hugsast getur með tilliti til gengis krónunnar og launahækkana.
„Mín skoðun er reyndar sú að gisting ætti að vera i lægra þrepi. Það eru erlendir ferðamenn sem standa undir þessum tekjum og þeir nota afar litla þjónustu á landinu fyrir utan að það eru bara tvö eða þrjú lönd í heiminum sem eru með gistingu í hæsta þrepi.“
Hann óttast að hærra virðisaukaskattþrep verði til þess að vegur heimagistingar aukist, hótel freistist til að hækka verð á mat sem er í lægra skattþrepi og lækka verð á gistingu og í versta falli að skattsvik aukist.
smari@bb.is