Verkefnið Suðupottur sjálfbærra hugmynda er nú í fullum gangi í Skóbúðinni á Ísafirði og í kvöld geta gestir og gangandi komið þangað og gert fjölnota taupoka, en þeir sem heimsótt hafa Suðupottinn hafa sýnt mikinn áhuga á að koma upp lánspoka-stöðvum í verslununum þar sem þeir sem gleyma að koma með fjölnota poka geta fengið lánaðan poka og skilað seinna. Slíkt verkefni hefur verið í gangi í Höfn í Hornafirði og verið afar vel tekið. Þegar er byrjað að safna pokum eftir að boðið var upp á taupokagerð í Suðupottinum fyrir skömmu, en hafa margir líst yfir áhuga á frekari taupokagerð og því var brugðið á það ráð að endurtaka leikinn.
Í kvöld verður í Suðupottinum unnið með nokkrar auðveldar aðferðir til að gera taupoka úr bolum. Mega gestir gjarnan taka með sér gamla boli í verkið en einnig verður efniviður á staðnum, svo má hafa með sér skæri og jafnvel saumavélar, en á staðnum eru líka uppskriftir að taupokum þar sem ekki þarf að sauma, svo enginn þarf að vera aðgerðarlaus. Taupokagerðin fer fram á milli 20 og 22 í Skóbúinni þar sem áður var til húsa Skóbúð Leós við Hafnarstræti.