Fullt hús stiga eftir annasama helgi

Unglingaflokkur Vestra eftir sigurinn gegn Stjörnunni í Ásgarði ásamt Yngva Páli Gunnlaugssyni, þjálfara.

Viðburðarrík helgi er nú að baki í körfuboltanum hjá Vestra en leiknir voru níu útileikir á höfuðborgarsvæðinu frá föstudegi til sunnudags; einn unglingaflokksleikur, fjórir leikir í 9. flokki drengja og fjórir leikir í minnibolta eldri stúlkna. Fór svo að allir leikirnir unnust og er því Vestri karfa með fullt hús stiga eftir þessa annasömu helgi. Allir hóparnir þrír hafa í vetur æft undir stjórn Yngva Páls Gunnlaugssonar, yfirþjálfara körfuknattleiksdeildar Vestra.

Unglingaflokkur karla lék sinn síðasta leik á tímabilinu gegn Stjörnunni í Ásgarði á föstudagskvöld og hafði sigur í framlengdum leik, 72-64. Liðið lék í 2. deild í vetur og hafnaði í 5. sæti.

Bikarmeistarar 9. flokks drengja spiluðu síðan fjóra leiki í síðustu umferð Íslandsmótsins í B-riðli, en mótið fór fram hjá ÍR-ingum í Hertz hellinum fræga. Þar mættu þeir heimamönnum ásamt Þór Akureyri, Keflavík og sameiginlegu liði Borgnesinga og Reykdæla. Drengirnir sigruðu alla sína leiki með verulegum yfirburðum. Þeir eru því komnir upp í A-riðil á ný, ásamt fjórum bestu liðum landsins í þeirra aldurshópi.

Sigursæll 9. flokkur Vestra ásamt Yngva þjálfara komnir í hóp þeirra bestu á ný eftir mót helgarinnar.

Stelpurnar í minnibolta eldri, 10-11 ára, tóku þátt í fimmta og síðasta Íslandsmóti vetrarins í þeirra aldurshópi en mótið fór fram hjá Fjölni í Dalhúsum í Grafarvogi.  Uppskar liðið sigur í öllum sínum leikjum en þær léku í C-riðli mótsins. Þær hefja því leik í B-riðli á næstu leiktíð.

Vestrastelpurnar í minnibolta eldri unnu alla leikina sína um helgina undir stjórn Nökkva Harðarsonar, þjálfara, sem hljóp í skarðið á annasamri helgi Yngva yfirþjálfara.
DEILA