Frumburðsviðburður í Skúrinni

Kristján Freyr Halldórsson.

Hið nýstofnaða en óformlega lista- menningarfélag Skúrarinnar stendur í kvöld fyrir „frumburðsviðburði“ í Skúrinni við veitingastaðinn Húsið á Ísafirði. Viðburðurinn er fyrsta plötukynning félagsins og ætlar Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður, að ríða á vaðið og kynna meistaraverkið OK Computer með Radiohead. Maðurinn á bak við viðburðinn er Haukur S Magnússon og hann vonast til að plötukynningin í kvöld sé einungis smjörþefurinn af því sem koma skal. „Það eru fyrirhugaðar fleiri plötukynningar og svo er í pípunum kvikmyndasýningar í Skúrinni og þá líklegast eftir einhverju þema. Svo leggst okkur örugglega eitthvað meira gott til,“ segir hann.

Kristján Freyr er ekki ókunnugur plötukynningum. Hann hefur um árabil gert útvarpsþættina Albúmið á Rás 2 með Jóni Ólafssyni, en í þáttunum er ein þekkt plata úr tónlistarsögunni tekin fyrir og greind ítarlega.

Plötukynningin í kvöld hefst kl. 21.

DEILA