Fræðafélag á Ströndum

Stofnfundur fræðafélags á Ströndum verður haldinn sumardaginn fyrsta kl. 20:00 í Sævangi á Ströndum. Félagið verður þverfaglegt og opið bæði háskólamenntuðu fólki og áhugamönnum um margvísleg fræði, vísindi, menningu og listir. Allir eru þannig velkomnir í félagið.

Á Ströndum er grundvöllur fyrir dálítið rannsóknasamfélag, en þar eru meðal annars búsettir einstaklingar með menntun í þjóðfræði, sagnfræði, safnafræði, mannfræði og náttúruvísindum. Eins eru rekin þar söfn, sýningar og fræðasetur.

Markmið félagsins verður að auka samvinnu og efla tengslanet fræði- og vísindamanna á Ströndum, auk þess að vinna að kynningu þeirra rannsóknarverkefni sem unnin eru í héraðinu fyrir íbúum og umheiminum öllum.

Stofnfundurinn verður haldinn á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 20. apríl, kl. 20:00 í Sauðfjársetrinu í Sævangi. Allir eru velkomnir.

Það er Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa sem stendur fyrir verkefninu en rannsóknarsetrið var sett á stofn 1. September í fyrra og tilgangur þess er að sinna rannsóknum og miðlun á þjóðfræði.

bryndis@bb.is

DEILA