Nú renna öll vötn til Ísafjarðar og eru gestir þegar teknir að streyma að í stórum stíl og verður væntanlega lítið lát á næstu tvo daga eða svo. Skíðavikan verður sett í dag og markar hún upphaf þeirra fjörfullu daga sem nú fara í hönd. Að vanda fer setningin fram á Silfurtorgi og hefst hún klukkan 16:30, en hálftíma fyrr mun Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar marsera ásamt meðlimum úr skíðafélagi Ísfirðinga frá Ísafjarðarkirkju. Að vanda er svo sprettganga Craftsports í Hafnarstrætinu í beinu framhaldi af setningu klukkan 17.
Einhverjir taka þó forskot á sæluna og má fram að því til að mynda skoða sýningu leikskólans Sólborgar á Ísafirði sem ber heitið Bær í barns augum. Sýningin er byggð á verkefnum sem nemendur hafa unnið í tengslum við bæinn sinn og má sjá verkin vítt og breitt um Ísafjörð, til að mynda í gluggum verslana. Þá verður einnig í gangi páskaleikur í Náttúrugripasafninu í Bolungarvík, þar sem talandi arnpáfi tekur á móti krökkunum og boðið upp á þrautaleik fyrir börn að 14 ára aldri. Páskaleikurinn er í gangi frá 13-17 og verður hann einnig í boði á morgun skírdag og á laugardag.
Þá verður gleðigutl á Vagninum á Flateyri á milli 17 og 19 og þar verður svo ball í kvöld með gleðisveitinni F1 rauður. Þá verður Bítl í Edinborgarsal klukkan 21 er blússveitin Akur heiðrar þá fornfrægu hljómsveit The Beatles. Klukkustund síðar hefst svo bjórbingó á Húsinu og klukkan 23 þeytir DJ Óli skífum í Krúsinni.
Skírdagur
Á skírdag er dagskráin þétt frá morgni til kvölds og hefst hún klukkan 7 í Bolungarvík þar sem þátttöku- og hugleiðsluverkið Síðasta kvöldmáltíðin fer fram. Þar eru þátttakendur leiddir til móts við eigin lífsgildi og lífsstíl um leið og sjónum er beint að samfélaginu. Verkið er endurgjaldslaust og stendur milli til klukkan 19. Það tekur ríflega klukkustund fyrir hvern og einn að þræða sig í gegnum verkið og þarf að skrá sig í síma 868 3040. Í Bolungarvík verður einnig samflot í sundlauginni á milli 10 og 11 og ferming verður í Hólskirkju klukkan 11.
Sitthvað er á dagskrá Skíðavikunnar fyrir þá íþróttasinnuðu, en líkt og nafnið gefur til kynna er talsvert um skíðatengda viðburði, en einnig eru dagskrárliðir fyrir gesti sem kjósa aðra tegund af hreyfingu. Til að mynda bjóða Borea Adventures á Ísafirði upp á stutta kajakferð á Pollinum, mæting í Bræðraborg klukkan 10:30. Þá verður einnig páskaeggjamót í körfubolta fyrir yngri kynslóðina í íþróttahúsinu Torfnesi sem hefst klukkan 11, þar sem einnig verður hægt að næla sér í belgískar vöfflur.
Klukkan 12 verður skíðaskotfimi á Seljalandsdal, þar sem keppendur sameina hæfni sína á skíðum og skotfimi. Á sama tíma hefst páskakökubasar barna- og unglingaráðs körfuknattleiksdeildar Vestra í Samkaup. Klukkan 13 og 16 sýnir leikdeild Höfrungs Dýrin í Hálsaskógi á Þingeyri og einnig verða tvær sýningar á föstudaginn langa og fer hver að verða síðastur að tryggja sér miða í síma 659 8135. Þá geta listhneigðir gætt sér á úrvals myndlist er Örn Alexander Ámundason sýninguna Ljóðræn kveikja samspils (ó)huglægs í samhengi í Gallerí Úthverfu klukkan 16.
Munnar og magar ráða oft ferðinni og gildir þá einu hvort þar eru á ferð heimamenn eða gestir og að kvöldi skírdags verður kótelettukvöld á Einarshúsi í Bolungarvík, pantanir í síma 690-2303
Klukkan 20 er eitt og annað um að vera og má þá bruna á Þingeyri þar sem Kómedíuleikhúsið sýnir hið áhrifamikla leikverk Gísli á Uppsölum í Félagsheimilinu. Miðapantanir í síma 891 7025. Fyrir þá sem vilja næra andann verður Helgistund í Flateyrarkirkju, þar sem fram fer altarisganga og tónlistaratriði og fyrir þá sem vilja næla sér í auka adrenalínflæði verður Big jump / slope style keppni á Seljalandsdal. Þá verður einnig á sama tíma pöbbagisk á Vagninum á Flateyri.
Klukkan 21 mun svo tónlistarmaðurinn Valdimar ásamt hljómsveit halda tónleika á Hótel Ísafirði og á sama tíma verður Let it be, Bítlaheiðurstónleikar í Edinborgarhúsinu. Þá verður einnig hitað upp fyrir Aldrei fór ég suður í Krúsinni og klukkustund síðar eða klukkan 22 treður tónlistarmaðurinn Rúnar Eff upp á Húsinu.
Upp úr kl. 22 hefst ljóðaball í Tjöruhúsinu þar sem fram koma m.a. Eiríkur Örn Norðdahl, Skúli mennski, Kött Grá Pjé og fleiri.
Föstudagurinn langi
Árla dags á föstudaginn langa verður útivistin alls ráðandi. Klukkan 9:30 verður farið í fjallaskíðaferð í Jökulfirði með Borea Adventures og klukkustund síðar bjóða þau einnig upp á kajakferð á Pollinum, sem er í boði alla daga Skíðavikunnar. Þá verður klukkan 10 helgiganga frá Kirkjubóli í Valþjófsdal yfir í Holt, þar sem boðið verður uppá súpu og brauð í Friðarsetrinu að leiðarlokum.
Klukkan 11 hefst svo hinn sívinsæli furðufatadagur í Tungudal sem hefur verið á dagskrá Skíðavikunnar svo lengi sem elstu menn muna. Grillaðar pylsur, andlitsmálning, skíði, lifandi tónlist og karamellur sem rigna af himnum ofan. Klukkan 11 verða Passíusálmar Hallgríms Péturssonar lesnir í Hólskirkju.
Klukkan 15 verður opinn hátíðarfundur AA- og ALANON samtakanna í Ísafjarðarkirkju. Allir velkomnir. Klukkan 17 verður svo poppprinsinn Páll Óskar með barnaball í Edinborgarhúsinu, en þessi viðburður hefur komið sterkur inn hin síðari ár þar sem fjölskyldan tekur snúning saman á dansgólfinu.
Klukkan 19 er svo komið að því sem flestir hafa beðið eftir, rokkhátíð alþýðunnar Aldrei fór ég suður brestur á í Kampa-skemmunni við Aldrei fór ég Suðurgötu. Á miðnætti er svo slegið í böll í hverju húsi og verður þá Páll Óskar í Edinborgarhúsinu, Gísli Pálmi í Krúsinni, Dj Davið Roach á Húsinu og sjálft KK band á Vagninum á Flateyri.
Laugardagur 15. apríl
Dagskráin hefst klukkan 10 með íþrótta- og leikjadegi Höfrungs í íþróttamiðstöðinni á Þingeyri. Þar verður að finna þrautaplan fyrir börnin og páskaeggjaleit ásamt því sem þar má iðka fjölmargar íþróttagreinar.
Klukkan 10:30 hefst svo sönglagasmiðja fyrir börn í Hömrum. Þar sem boðið verður upp á dagsnámskeið í sönglagasköpun og föndri sem endar á tónleikum.
Aftur verður blásið til furðufatadags á skíðasvæðinu en að þessu sinni á Seljalandsdal. Byrjað verður á garpamóti og það verða skráningar á staðnum. Páskaeggjamót, fyrir börn fædd frá árinu 2005 verður svo í kjölfarið og þar á eftir grillaðar pylsur til styrktar Skíðafélaginu.
Í Safnahúsinu í Gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði opnar klukkan 14 Sýning um Aldrei fór ég suður og verður dagskrá henni tengd þar sem flutt verða erindi um hátíðina. Klukkustund síðar hefjast Bryggjutónleikar á Suðureyri þar sem fjölmargir tónlistarmenn stíga á stokk, þeirra á meðal nýkrýndir sigurvegarar Músíktilrauna Between Mountains.
Klukkan 19 heldur svo Aldrei fór ég suður fjörið áfram sem aldrei fyrr í Kampa-skemmunni. Fyrir þá sem vilja eitthvað aðeins rólegra verður klukkan 21 páskabingó í Simbahöllin á Þingeyri og verður það einnig að kvöldi páskadags.
Upp úr klukkan 22 tekur næturlífið við sér er Gay Lookin’ Soft Spoken, DJ Set verður á Vagninum á Flateyri og á miðnætti poppar upp hvert ballið á fætur öðru: Aron Can og Emmsjé Gauti í Edinborgarhúsinu, GUS GUS í Krúsinni og Dj Óli Dóri á Húsinu.
Páskadagur
Dagurinn hefst á rólegu nótunum er klukkan 9 verður hátíðarmessa í Hólskirkju í Bolungarvík og klukkan 10 verður samflot í Musteri vatns og vellíðunar eða sundlaug staðarins, þá verður páskamessa klukkan 11 í Holtskirkju í Önundarfirði og klukkan 14 í Suðureyrarkirkju.
Klukkan 13 verður Garpamótið í Tungudal þar sem fram fer keppni í samhliðasvigi. Hermigervill skemmtir gestum á Húsinu klukkan 15 og þá eru nokkur rólegheit fram á kvöld, en á miðnætti hefjast dansleikir með Appollo og Eyþór Inga í Edinborgarhúsinu, Skítamórall í Krúsinni og geim á Vagninum á Flateyri.
Þrátt fyrir að dagskráin sem hér birtist sé bæði þétt og væn, þá er aldrei að vita nema fleiri viðburði sé að finna á svæðinu þessa dagana. Stuðst var við dagkrána sem finna má inn á paskar.is sem gefur gott yfirlit yfir það feiknarfjör sem bíður heimamanna og gesta á norðanverðum Vestfjörðum. Spáin er fín og okkur ekkert að vanbúnaði! Gleðilega páska – Gleðilega Skíðaviku – Gleðilegt rokk!