Fjallað um uppboðskerfi fiskmarkaða í Vísindaportinu

Mynd: uw.is

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða þessa vikuna sem er jafnframt hið síðasta í vetur flytur Ísfirðingurinn Bjarni Rúnar Heimisson erindi um meistaraverkefni sitt í reikniverkfræði sem fjallar um uppboðskerfi fiskmarkaða, en Bjarni útskrifaðist úr verkfræðideild Háskóla Íslands síðastliðið haust.

Uppboðskerfi fiskmarkaða olli byltingu í sölu á fiski á Íslandi þegar það var kynnt til sögunnar og var mikið hagsmunamál fyrir sjómenn og útgerðir á Íslandi. Þrátt fyrir að ýmsar leiðir hafi verið farnar til að bæta upplýsingaflæði og gagnsæi kerfisins með nýju upplýsingakerfi og heimasíðu þá virðist framboð enn vera sá þáttur sem hefur mest áhrif á verðmyndun. Það veldur því að sjómenn og útgerðir virðast ekki vera að fá umbun fyrir bætta meðhöndlun.

Markmið verkefnis Bjarna var að finna þau atriði sem ættu að koma fram í uppboðslýsingu á fiskuppboðum en eru ekki til staðar. Framkvæmd var þarfagreining þar sem meðal annars voru tekin viðtöl við mismunandi hagsmunaaðila uppboðskerfisins. Einnig var framkvæmd línuleg aðhvarfsgreining á raungögnum sem fengin voru frá Reiknistofu fiskmarkaða hf. og þessi gögn síðan greind til að finna út hvaða þættir það eru sem hafa mestu áhrif á verð á fiskuppboði. Hagsmunaaðilar bentu á þó nokkra þætti þar sem bæta mætti upplýsingagjöf í uppboðskerfi fiskmarkaða. Nákvæmni spálíkansins sem fékkst er takmarkað, þar sem fleiri þættir hafa áhrif á verðið en fram koma í uppboðslýsingu. Verkefnið er opið fyrir áhugasama: http://skemman.is/item/view/1946/26204.

Bjarni Rúnar er fæddur og uppalinn á Ísafirði og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði vorið 2010. Þaðan lá leiðin suður í nám við Háskóla Íslands þar sem Bjarni lauk B.Sc gráðu í iðnaðarverkfræði vorið 2013, B.Sc gráðu í tölvunarfræði í febrúar 2016 og M.Sc gráðu í reikniverkfræði í október 2016.

Bjarni starfaði í mörg ár á Fiskmarkaði Suðurnesja á Ísafirði samhliða skólagöngu sinni og var því alkunnur umhverfi fiskmarkaða áður en lokaverkefni hans fór af stað. Í dag starfar hann sem hugbúnaðarsérfræðingur hjá Advania en áður starfað hann sem stundakennari við Háskóla Íslands og í ýmsum öðrum hugbúnaðarverkefnum.

Sem fyrr stendur Vísindaport frá 12.10-13.00 og er opið öllum áhugasömum. Fyrirlesturinn að þessu sinni fer fram á íslensku.

annska@bb.is

DEILA