Annað málsóknarfélag gegn laxeldinu

Jón Steinar Gunnlaugsson. Mynd: Sigtryggur Ari / DV.

Málsóknarfélagið Náttúruvernd 2, félag hagsmunaaðila, hefur stefnt Matvælastofnun og Löxum fiskeldi og fer fram á að rekstrarleyfi Laxa Fiskeldis fyrir 6000 tonna eldi á laxi í Reyðarfirði verði ógilt. Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður fer með málið fyrir hönd málsóknarfélagsins.  Frá þessu er greint á vef RÚV. Þetta er annað málið gegn fiskeldi sem Jón Steinar sækir fyrir hönd málsóknarfélags.

Fyrra málið er stefna málsóknarfélagsins Náttúrurverndar 1 gegn Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Arnarlaxi ehf. vegna laxeldis í Arnarfirði.  Þar er farið fram á að rekstrarleyfi og starfsleyfi Arnarlax fyrir eldi á laxi í Arnarfirði verði gerð ógild þar sem þau fari meðal annars gegn ákvæðum náttúruverndarlaga og fiskeldislaga.

Að málsóknarfélaginu í Arnarfirði standa eigandi Kirkjubóls í Arnarfirði, eigandi Hringdals í Arnarfirði; bóndi í Grænuhlíð í Arnarfirði;,eigendur veiðiréttar í Haffjarðará á Snæfellsnesi og veiðifélag Laxár á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu.

Í stefnu Náttúruverndar 2 er þess krafist að rekstrarleyfi Laxa fiskeldis í Reyðarfirði verði stöðvuð, meðal annars á þeim forsendum að leyfið sé gefið út án þess að leyfilegur eldisstofn sé tilgreindur sem sé í bága við fiskeldislög. Þá sé leyfið, sem er frá árinu 2012, útrunnið og framlenging verið háð annmörkum. Starfsemi Laxa Fiskeldis í Reyðarfirði er ekki hafin. Stefnandi telur að lagaheimild skorti til að veita Löxum fiskeldi afnot af hafsvæðinu þar sem eldið á að vera og að eldið fari í bága við einkaréttarlega hagsmuni þeirra sem standa að málsókninni.

Stefnan verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. apríl.

DEILA