Fjórði flokkur Harðar í handboltanum gerði sér lítið fyrir og varð deildarmeistari á sumardaginn fyrsta með sigri á HK. Þeir höfðu áður lagt Hauka, Stjörnuna, Gróttu og Selfoss að velli til að ná þessum fyrsta titli í safnið. Keppnin var reyndar gríðarlega jöfn í allan vetur þar sem flest lið unnu og töpuðu á víxl en fyrir nokkru varð ljóst að með sigri í sínum síðasta leik á vertíðinni myndu Harðardrengirnir verða deildarmeistarar. Þeir voru því spenntir fyrir leik og á fyrstu mínútum hans en sigu síðan jafnt og þétt framúr og lönduðu góðum sigri, 22-16. Til að kóróna góðan árangur fengu strákarnir í 5. flokki að spreyta sig í leiknum og stóðu þeir sig allir með prýði. Var ekki að sjá að þar væru yngri strákar á ferð.
Harðarmenn fengu meistarabikarinn afhentan að loknum leik og tóku vel á því í fagnaðarlátunum. Með sigrinum enduðu þeir einu stigi fyrir ofan Selfoss með 40 mörk í plús sem var langbesta markahlutfall deildarinnar.
Á myndinni eru strákarnir með þjálfara sínum Grétari Eiríkssyni sem er, því miður, að láta af störfum eftir frábært starf hér fyrir vestan.