Vestfirðingar sigursælir í svæðiskeppni Nótunnar

Mariann Rähni ásamt kennara sínum Tuuli Rähni

Svæðistónleikar Nótunnar uppskeruhátíð tónlistarskólanna í landinu fór fram á Akranesi á laugardag og kepptu þar nemendur í tónlistarskólum á Vestfjörðum og Vesturlandi um sæti á lokahátíð keppninnar sem fram fer í Hörpu í byrjun næsta mánaðar. Vestfirskir tónlistarnemar voru sigursælir á hátíðinni þar sem tvö af þeim þremur atriðum sem áfram komust voru Vestfirsk. Það var 11 ára gamall píanónemandi Tuuli Rähni frá Tónlistarskóla Bolungarvíkur, Mariann Rähni sem fór með sigur af hólmi, en hún lék Vals í e-moll eftir Frederic Chopin. Í öðru sæti var Aron Ottó Jóhannsson söngnemandi Ingunnar Óskar Sturludóttur frá Tónlistarskóla Ísafjaðrar sem söng við undirleik annars nemanda skólans Péturs Ernis Svavarssonar. Í þriðja sæti voru nemendur frá Tónlistarskóla Akraness.

Aron Ottó ásamt Pétri Erni sem sá um undirleik. Mynd af Fésbókarsíðu TÍ.

Þetta er í áttunda sinn sem Nótan er haldin og hafa vestfirskir tónlistarnemar oftar en ekki gert þar góða keppni. Í þetta sinn voru send í svæðiskeppnina 24 atriði frá 8 tónlistarskólum. Mariann var eini keppandinn frá TB, en fyrir hönd TÍ kepptu 6 nemendur sem voru með fjögur atriði, auk þeirra Arons Ottós voru það Heiður Hallgrímsdóttir og Matilda Mäekalle sem spiluðu fjórhent á píanó, Rebekka Skarphéðinsdóttir og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir spiluðu einnig fjórhent á píanó og Nikodem Júlíus Frach sem lék á fiðlu.

Nótan er samstarfsverkefni Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) og Samtaka tónlistarskólastjóra (STS). Uppskeruhátíðin er opin öllum tónlistarnemendum og hefur engin aldursmörk. Þátttakendum er skipað í flokka eftir áfangaskiptingu aðalnámskrár tónlistarskóla, þ.e. í grunnnám, miðnám og framhaldsnám, einnig er keppt í opnum flokki. Þrjú atriði sem þykja skara fram úr í svæðiskeppni Vestfjarða og Vesturlands fara í lokakeppnina, en úr öðrum svæðiskeppnum eru sjö atriði valin.

Lokahátíð Nótunnar felur í sér tvenna tónleika og viðurkenningaathöfn og fer hún fram í Eldborgarsal Hörpu, sunnudaginn 2. apríl.

annska@bb.is

DEILA