Umbúðalína Fisherman tilnefnd til FÍT-verðlaunanna

Skjáskot af vefverslun Fisherman

Ný umbúðalína Fisherman er tilnefnd til FÍT-verðlaunanna sem veitt verða í vikunni. Fisherman sem er ferðaþjónustufyrirtæki á Suðureyri, er einnig með vefverslun þar sem hægt er að panta sér harðfisk, þorskalifur, söl og sjávarsalt yfir internetið. Það er Jóhanna Svala Rafnsdóttir hjá Kapli sem hannaði umbúðalínuna fyrir Fisherman.

FÍT, eða félag íslenskra teiknara, hefur um árabil veitt verðlaun fyrir það sem skarar fram úr í grafískri hönnun og myndskreytingum á Íslandi ár hvert. Tilnefnt er til verðlauna í 19 flokkum sem ná yfir helstu undirflokka grafískrar hönnunar og einnig eru veitt ein aðalverðlaun fyrir það sem þykir bera höfuð og herðar yfir önnur verk, þvert á flokka.

Aldrei hafa borist fleiri tilnefningar til verka en nú er um 300 tilnefningar bárust og voru 82 þeirra tilnefnd. Verkin sem vinna til verðlauna og viðurkenninga verða sýnd á veglegri sýningu sem undanfarin ár hefur verið haldin í tengslum við HönnunarMars. Verðlaunaafhendingin fer fram í Tjarnarbíó 22.mars klukkan 18:30.

annska@bb.is

DEILA