Telja sig vita hvaðan fiskurinn slapp

Regnbogasilungur veiddist í ám víða Vestfjörðum síðasta sumar og fram á haust.

Matvælastofnun hefur rökstuddan grun um hvaðan regnbogasilungur slapp úr kvíum síðasta sumar, en fiskur veiddist í ám víða á Vestfjörðum. Matvælastofnun telur að regnbogasilungurinn hafi ekki sloppið í gegnum göt á netum kvía. „Við höfum grun um hvaðan fiskurinn sem veiddist í sumar er ættaður en bíðum slátrunar úr kvíum til að fá haldbærari niðurstöður,“ segir Soffía Katrín Magnúsdóttir, eftirlitsmaður Matvælastofnunar með búnaði og kvíum eldisfyrirtækja í samtali við blaðamann Vísis. Málið er enn til rannsóknar hjá Matvælastofnun og er beðið átekta eftir því að fyrirtæki slátri fiski, þá koma afföll í kvíum í ljós.

Matavælastofnun telur ósennilegt að fiskurinn hafi sloppið í gegnum göt á kvíum. Ef stór göt væru á kvíum regnbogasilungs telur Matvælastofnun nær öruggt að það kæmi fram þegar kafarar kanna kvíarnar. „Við teljum frekar að einhvers konar handvömm starfsmanna hafi verið valdur þess að regnbogi slapp í sumar,“ segir Soffía Katrín.

smari@bb.is

DEILA