Strandagangan fór fram í blíðskaparveðri

Frá Strandagöngunni í fyrra, Mynd: Mundi Páls.

Strandagangan var haldin í 23.sinn á laugardag undir bláum himni og skínandi geislum sólarinnar. Að þessu sinni fór gangan fram á Þröskuldum þar sem nægan snjó er að finna, reyndar það mikinn að fresta þurfti starti í göngunni um tvær klukkustundir vegna þess hversu mikið af blautum snjó kyngdi niður aðfaranótt laugardags og seinlega gekk að moka bílastæðin að nýju og troða brautina. Allt hafðist það þó að lokum og klukkan 14 var forstart í 20km gönguna og ræst í 1km göngu, klukkan 14:30 var svo ræst í 5, 10 og 20km.

Í 5km göngu kvenna sigraði Margrét Sigmundsdóttir og í karlaflokki var það hinn 14 ára Friðrik Heiðar Vignisson frá SFS sem bar sigur úr býtum. Í 10km göngu kvenna sigraði hin unga og efnilega Unnur Guðfinna Daníelsdóttir, en hún er fædd árið 2006. Í karlaflokki var einnig ungur skíðamaður sem hreppti gullið Stefán Snær Ragnarsson frá SFS sem fæddur er árið 2001.

Samhliða Strandagöngunni fór fram Íslandsgangan, en svo nefnist röð skíðagöngumóta sem trimmnefnd Skíðasambands Íslands hefur efnt til árlega síðan 1985. Í mótaröðinni er að finna sex skíðagöngumót sem haldin eru víðs vegar um landið, þar af tvö á Vestfjörðum, Strandagönguna og Fossavatnsgönguna. Keppt er í þremur aldursflokkum karla og kvenna.

Í kvennaflokki Strandagöngunnar sigraði Elsa Guðrún Jónsdóttir í aldursflokknum 15 til 34 ára, í flokki 35 til 49 ára sigraði Hólmfríður Vala Svavarsdóttir frá SFÍ og Kristina Andersen frá Ulli í flokki 50 til 59 ára. Í flokki karla 15 ára til 34 ára sigraði Sigurður Arnar Hannesson frá SFÍ og var hann jafnframt sá sem kom fyrstur í mark allra í göngunni og fékk hann að launum Sigfúsarbikarinn, veglegan farandgrip göngunnar. Í flokki 50 til 59 karla ára sigraði Kristbjörn R. Sigurjónsson frá SFÍ, í flokki 60 ára og eldri sigraði Egill Guðmundsson frá Ulli.

Sá veglegasti og merkilegast er án efa Sigfúsarbikarinn, en hann er farandbikar sem hlotnast þeim einstaklingi sem kemur fyrstur í mark í 20 km. göngu.

Fyrsta Strandagangan var haldin árið 1995. Gangan er fyrir alla aldurshópa, vana sem óvana. Vegalengdir eru 1 km. fyrir 12 ára og yngri og svo 5, 10 og 20km fyrir aðra aldurshópa. Keppt hefur verið í sveitakeppni í öllum vegalengdum frá árinu 2007. 88 manns tóku þátt í göngunni að þessu sinni.

annska@bb.is

DEILA