Skyldu bræður öskudags verða átján?

Kalt og fallegt veður verður á Vestfjörðum í dag, en spáð er austan 3-8 m/s og léttskýjuðu á Vestfjörðum og verður frost á bilinu 0 til 8 stig. Í dag er öskudagur og gamlar, íslenskar alþýðuveðurspár kveða á um að öskudagur eigi sér átján bræður í veðurfari og ættu því Vestfirðingar að horfa glaðir fram veginn – veðurfarslega. Veðurspá Veðurstofu Íslands tekur nánast undir þetta með spá sinni næstu tvo daga þar sem áfram á að vera hæg austlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað. Frost verður 0 til 10 stig og má segja að hver dagur þessa vikuna sé afrit af hinum fyrri. Helgarveðrið virðist ætla að vera með svipuðu sniði á Vestfjörðum þó það taki meiri breytingum annarsstaðar á landinu.

Þessa vísu um öskudag má finna í Íslenzkum þjóðháttum eftir Jónas Jónasson:

Öskudagsins bjarta brá

bætti úr vonargögnum,

þar hann bræður átján á,

eptir gömlum sögnum.

annska@bb.is

DEILA