Skoði samstarf í sorpmálum

Umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt tillögu fulltrúa sjálfstæðismanna í nefndinni um að leita eftir samstarfi við Súðavíkurhrepp og Bolungarvíkurkaupstað um sorpmál. Ísafjarðarbær hefur unnið að næsta útboði í sorpmálum og tillagan gerir ráð fyrir að sú vinna verði lögð í salt á meðan rætt er við nágrannasveitarfélögin. „Það gefur auga leið að um sameiginlegt hagsmunamál allra sveitarfélaganna er að ræða, bæði kostnaðarlega og umhverfislega. Við leggjum til að skipuð verði nefnd með fulltrúum allra sveitarfélaganna hið fyrsta og unnið verði hratt og vel í undirbúningi að sameiginlegu útboði í sorpmálum,“ segir í tillögunni.

Nefndin leggur til við bæjarráð að skipuð verði nefnd um útboð á sorpmálum sveitarfélaganna með fulltrúum Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkurkaupstaðar og Súðavíkurhrepps.

DEILA