Síðasta kvöldmáltíðin í Bolungarvík á skírdag

Það er oft mikið um líf og fjör í kringum páskana á norðanverðum Vestfjörðum og geta heimamenn og gestir valið úr fjölda spennandi viðburða til að njóta eða taka þátt í. Eitt af því sem í boði verður að þessu sinni er þátttaka í síðustu kvöldmáltíðinni. Síðasta Kvöldmáltíðin er nýtt þátttökuverk og upplifunarganga undir listrænni stjórn Steinunnar Knútsdóttur, Rebekku A. Ingimundardóttur og Halls Ingólfssonar. Verkið leiðir áhorfandann í einskonar hugleiðslugöngu til móts við eigin lífsgildi og lífsstíl um leið og það beinir sjónum að samfélagslegum álitamálum, þar sem gengið er út frá spurningunni „hvernig væri þín síðasta kvöldmáltíð?“

Verkið verður flutt á fjórum stöðum á landinu á sama tíma og auk Bolungarvíkur verður það á Raufarhöfn, Höfn i Hornafirði og í Keflavík. Hver ganga er unnin upp úr viðtölum við íbúa á svæðinu og framkvæmdin í nánu samstarfi við íbúa. Markmið verkefnisins er að kafa ofan í lífsgildi fólks á svæðum þar sem er atgervisflótti, íbúum er að fækka eða lífsgæðum íbúa er ógnað af einhverjum ástæðum.

Menningar- og ferðamálaráð Bolungarvíkur óskar eftir þátttakendum í síðustu kvöldmáltíðina. Þátttaka er gestum að kostnaðarlausu og má skrá sig eða senda fyrirspurnir á olda86@gmail.com.

annska@bb.is

DEILA