Notkun bílbelta verulega ábótavant

 

Ferðamönnum sem aka um Ísland hefur stórfjölgað og samfara því hefur fjöldi umferðarslysa þeirra margfaldast. Samkvæmt upplýsingum Samtaka ferðaþjónustunnar er fjölgun ferðamanna á Íslandi áætluð 20- 25% á ári. Í nýlegum skýrslum Rannsóknarnefndar samgönguslysa á tveimur banaslysum erlendra ferðamanna 2015 kemur í ljós að bílbelti voru ekki notuð. Í einu af þeim slysum sem átti sér stað 30. ágúst 2015 var límmiði í bílnum á hanskahólfinu þar sem bent var á mikilvægi þess að spenna bílbeltin. Konan sem lést var beltislaus farþegi í aftursæti.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa á 16 banaslysum í umferðinni 2015 kemur meðal annars fram að í fimm þessara slysa létust erlendir ferðamenn og líkt og fyrri ár var áberandi hve bílbeltanotkun er ábótavant meðal þeirra. Að mati Rannsóknarnefndarinnar þurfa viðvörunarlímmiðar að vera stærri og helst einnig sýnilegir farþegum í aftursæti. Notkun bílbelta í aftursæti er verulega ábótavant í slysum ferðamanna sem neffndin hefur rannsakað.

DEILA