Norðaustanáttin ræður ríkjum næstu daga

Veðurstofa Íslands spáir norðaustan 8-15 m/s á Vestfjörðum í dag, en mun hægari vindi í kvöld og nótt. Á morgun verður veður með svipuðum hætti er gert er ráð fyrir norðaustan 8-13 m/s, en bætir í vind yfir daginn og annað kvöld má búast við 10-15 m/s. Það verða él og hiti í kringum frostmark. Svipaða sögu er að segja af spánni fyrir miðvikudag er spáin kveður á um norðaustan 10-15 m/s og snjókomu á Vestfjörðum.

Á vegum á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir. Eitthvað er um éljagang á fjallvegum og snjóþekja og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði.

annska@bb.is

DEILA