Níu af tíu með skráðan tannlækni

Um 91% barna sem eiga rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum eru nú skráð hjá heimilistannlækni. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirfylgni við átaksverkefni um tannlækningar fyrir börn tekjulágra forráðamanna. Á síðustu þremur árum hefur skráningum barna til heimilistannlækna fjölgað úr 64% í 91%. Langflest börn sem heyra undir ákvæði samnings um tannlækningar barna og unglinga ættu því að vera komin í reglulegt eftirlit hjá tannlæknum. Ríkisendurskoðun telur góðan árangur hafa náðst hvað þetta varðar og komum barna til tannlæknis fjölgað. Samningurinn um tannlækningar barna hefur verið innleiddur í áföngum en lokamarkmiðið er að öll börn að átján ára aldri eigi rétt á gjaldfrjálsri þjónustu í samræmi við hann. Skilyrði fyrir því að barn eigi rétt á gjaldfrjásum tannlækningum er að það hafi verið skráð hjá heimilistannlækni sem er með samning við Sjúkratryggingar Íslands. Hafi barn ekki skráðan heimilistannlækni hefur skólahjúkrunarfræðingur samband við forráðamenn þess og hvetur þá til að panta tíma hjá tannlækni. Þá hefur velferðarráðuneytið veitt embætti landlæknis gæðastyrk vegna verkefnis sem felur í sér að safna og vinna upplýsingar um tannheilbrigðisþjónustu og tannheilsu með rafrænni vöktun á heimtum barna til heimilistannlækna og söfnun rauntímaupplýsinga um tannheilsu þeirra.

smari@bb.is

DEILA