Líffræðilegur fjölbreytileiki grunnvatns í Vísindaportinu

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða þessa vikuna mun Daniel P. Govoni, vatnalíffræðingur og doktorsnemi við Háskólann í Alaska, fjalla um rannsókn sína á líffræðilegum fjölbreytileika í grunnvatni á Íslandi.

Daniel segir mikilvægt að skilja þá þætti sem leiða til, viðhalda og breyta líffræðilegri fjölbreytni. Þetta sé sérstaklega mikilvægt nú á dögum þegar líffræðileg fjölbreytni jarðarinnar breytist hratt. Hægt er að líta á íslensk ferskvatnskerfi sem náttúrulega tilraunastofu til þess að rannsaka þessa þætti. Sérstaklega má í þessu sambandi horfa til lífríkis kalds grunnvatns og linda á Íslandi. Þessi búsvæði hafa lítið verið rannsökuð, en hafa líklega hátt vísindalegt gildi.

Í rannsókn Daniels er líffræðileg fjölbreytni í grunnvatni kortlögð og blöndunarsvæði þess við yfirborðsvatn í ám og lindum. Sérstaklega er verið að rannsaka samsetningu fæðuvefs í þessum búsvæðum og hvernig fæðuvefur grunnvatns tengist fæðuvef yfirborðsvatns. Markmiðið er að geta tengt saman þá fjölbreytni sem sést við fjölbreytileika í vistfræðilegum þáttum, sérstaklega hvað varðar hitastig og næringarefnaframboð. Niðurstöður rannsóknarinnar munu gefa mikilvægar upplýsingar um það hvernig skuli nýta og vernda grunnvatnsauðlindina.

Daniel Govoni er með BA gráðu í sálfræði og dýrafræði ásamt meistaragráðu í vatnalíffræði frá Háskólanum á Hólum. Hann vinnur nú að doktorsrannsókn sinni í líffræði við Háskólann í Alaska í Fairbanks. Daniel fluttist til Ísafjarðar í lok síðasta árs ásamt eiginkonu og tveimur dætrum. Eiginkona hans er Catherine Chambers, fagstjóri haf- og strandsvæðastjórnunarnámsins við Háskólasetur Vestfjarða.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða í Vestrahúsinu frá 12.10-13.00 og er öllum opið. Fyrirlesturinn að þessu sinn fer fram á ensku.

annska@bb.is

 

DEILA