Leggur til sölu ríkiseigna til að fjármagna vegakerfið

Teitur Björn Einarsson.

Verulegur gæti náðst í uppbyggingu samgönguinnviða á næstu tveimur til fjórum árum, m.a. með sölu ríkiseigna. Þetta segir Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, í grein á Vísi. Teitur Björn skrifar meðal annars: „Hátt í 500 milljarðar af fé ríkisins er bundið í eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Með vandaðri og skipulagðri sölu á stórum hluta þeirra eigna má losa um mikið fé til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og spara þannig tugi milljarða á ári hverju í vaxtagreiðslur. Þannig skapast alvöru svigrúm til að styrkja grunnþjónustuna og byggja upp innviði.
Teitur nefnir fleiri dæmi um rekstur sem hann telur að ríkið gæti losað sig úr. „Til dæmis verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem varla getur talist til grunnþjónustu af hálfu ríkisins og einnig gætu allt að sex milljarðar áunnist með því að selja eignir ÁTVR.“

Að sögn Teits er ljóst að sumar þessara hugmynda þykja umdeildar og ólíklegt að hægt verði að losa um allar þessar eignir og draga úr umsvifum á skömmum tíma. „En með einhverjum hætti verður að stíga skrefi framar, og það fljótt, ef raunverulegur vilji er hjá þingheimi og ríkisstjórn að ráðast af krafti í nauðsynlegar samgönguumbætur. Tillögur um að draga úr umsvifum ríkisins í minna mikilvægum verkefnum, greiða niður skuldir til að spara vaxtagreiðslur og fjárfesta þess í stað í samgönguinnviðum eru einfaldlega valkostir í stöðunni sem nauðsynlegt er að horfa til,“ skrifar þingmaðurinn.

DEILA