Gísli á Uppsölum ferðast um landið

Gísli á Uppsölum er nú orðin ein vinsælasta sýning Kómedíuleikhússins frá upphafi. Þegar hefur sýningin verið sýnd 36 sinnum þar af 14 sýningar í Þjóðleikhúsinu, oftast fyrir fullu húsi. Það er sveitungi Gísla, Elfar Logi Hannesson, sem túlkar einbúann víðfræga í leikstjórn annars sveitunga hans, Þrastar Leós Gunnarssonar. Sýningin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda og áhorfenda, þar sem Halla Þórlaug Óskarsdóttir gagnrýnandi Víðsjár sagði meðal annars: „Elfar Logi er einstaklega sannfærandi í hlutverki Gísla og málar upp mynd af manninum af virðingu. Einleikurinn um Gísla á Uppsölum er næmt og fallegt verk sem snertir við áhorfendum. Viðfangsefninu er sýnd virðing og verður til þess að Gísli fær að ferðast um landið einsog hann hafði sjálfur viljað.“

Gísli Oktavíus fær sannarlega að ferðast áfram um landið. Á þriðjudag verður einleikurinn sýndur í Fella- og Hólakirkju og er uppselt á þá sýningu. Strax á eftir bregður hann sér á Hvammstanga þar sem verða sýndar tvær sýningar í Selasetrinu á miðvikudag og á fimmtudag verður sýning á Akranesi. Þá geta Vestfirðingar fengið að bera hann aftur augum í Dymbilviku er sýnt verður bæði á Þingeyri, sem og í Birkimel á Barðaströnd. Þá heldur hann austur á land og svo í leikferð um Suðurland. Í maímánuði verður hann aftur í Þjóðleikhúsinu og fleiri sýningar eru í kortunum í sumar, sem lesa má um á heimsíðu Kómedíuleikhússins.

annska@bb.is

DEILA