Funduðu með samgönguráðherra

Funduðu með samgönguráðherra

Bæjarstjóri, formaður bæjarráðs og verkefnastjóri samfélagsuppbyggingar í Vesturbyggð, fóru á fund með Jóni Gunnarssyni ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála í gær þar sem farið var yfir þá jákvæðu þróun og uppbyggingu atvinnulífs sem á sér stað á sunnanverðum Vestfjörðum. Á fundinum voru meðal annars ræddar fyrirhugaðar vegaframkvæmdir í Gufudalssveit, en þær eru meðal þeirra vegaframkvæmda á samgönguáætlun sem voru skornar niður þar sem Alþingi fullfjármagnaði ekki eigin samgönguáætlun. Í tilkynningu frá Vesturbyggð kemur fram að ráðherra hafi farið yfir málið frá sinni hlið og var hann jákvæður um hægt verði að bjóða verkið út á þessu ári.

Í tilkynningunni segir að mikilvægt sé að tryggja að fjárveiting verði eyrnamerkt verkefninu þannig að hægt verði að fara af stað innan ársins. Það er samt sem áður háð því að málið komist án frekari tafa í gegnum skipulagsferlið, en innan skamms er von á áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati Vegagerðarinnar. Fulltrúar Vesturbyggðar ítrekuðu mikilvægi þessarar vegaframkvæmdar og að málið verði leitt til lykta með farsælum og skjótum hætti.

DEILA