Fjallað um málefni flóttafólks

Harfnhildur Kvaran

Hrafnhildur Kvaran, verkefnastjóri Reykjavíkurdeildar Rauða krossins í málefnum flóttafólks verður með erindi um málefni flóttafólks á aðalfundi Rauða krossins á Ísafirði á morgun, fimmtudag. Hrafnhildur kynntist móttöku flóttamanna fyrst árið 2007 er hún gerðist sjálfboðaliði við móttöku hópa frá Kólumbíu. Hún hefur því reynslu af málaflokknum bæði sem starfsmaður Rauða krossins og sem sjálfboðaliði. Víða um heiminn vinnur Rauði krossinn að málefnum flóttafólks og er málsvari þess. Á Íslandi vinnur félagið með stjórnvöldum að móttöku flóttafólks í samvinnu við sveitarfélög og vinnur fjöldi sjálfboðaliða Rauða krossins við að aðstoða fjölskyldur við að fóta sig í nýju samfélagi.

Á aðalfundi Ísafjarðardeildarinnar verður farið yfir þau fjölmörgu verkefni sem deildin vinnur að og má þar nefna skyndihjálp, neyðarvarnir, fatasöfnun, starf með heimsóknavinum, starf með eldriborgurum, starf í Vesturafli og fleiri verkefni í þágu samfélagsins.

Fundurinn hefst klukkan 18 í Fræðslumiðstöð Vestfjarða og eru allir velkomnir. Erindi Hrafnhildar verður í upphafi fundar.

annska@bb.is

DEILA