Fái strax kosningarétt til sveitarstjórna

Þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram frumvarp um að kosningaréttur útlendinga til sveitarstjórna á Íslandi verði áþekkur því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Pawel Bartoszek. Ásamt Pawel standa að frumvarpinu þau Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson og Jóna Sólveig Elínardóttir.

Lagt er til að ríkisborgarar EFTA- og ESB-ríkja hljóti kosningarrétt strax við lögheimilisflutning en að ríkisborgarar ríkja utan EFTA og ESB öðlist kosningarrétt eftir að hafa verið búsettir á Íslandi í þrjú ár. Með þessu yrði staðan á Íslandi ámóta því sem tíðkast í Danmörku og Svíþjóð.

Í greinargerð frumvarpsins er bent á að erlendir ríkisborgarar séu nú um 8 prósent allra íbúa Íslands. „Þeir greiða hér skatta og leggja mikið til uppbyggingar samfélagsins, margir þeirra munu svo að öllum líkindum öðlast íslenskt ríkisfang þegar á líður. Flutningsmönnum þessa frumvarps þykir rétt að gefa þessum hópi aukið vægi og aukin völd þegar kemur að ákvörðunum sem varða nærumhverfi hans,“ segir í greingargerðinni.

DEILA