Einar Mikael mætir aftur með góðan gest

Einar Mikael töframaður

Töframaðurinn Einar Mikael mætir aftur á vestfirska grundu á morgun, en hann hefur verið duglegur við að opna heim töfranna fyrir börnum á öllum aldri með sýningum sínum. Hann hefur verið á ferð og flugi um hinn stóra heim síðustu mánuði en er nú mættur til landsins með fullt af nýju efni sem hann mun deila með gestum í félagsheimili Bolungarvíkur annað kvöld. Til dæmis frumsýnir hann þar flunkunýjan vestfirskan spilagaldur. Ekki er þar allt talið því á sýningunni mun galdramaðurinn John Tómasson einnig stíga á stokk og sína listir sínar, sem ku vera ekkert slor og kallar Einar Mikael hann besta galdramann Íslands.

Töfraheimur Einars Mikaels er troðfullur af ótrúlegum töfrabrögðum og mögnuðum sjónhverfingum. Einar leyfir áhorfendum að taka virkan þátt í sýningunni og oft fær hann einhver til þess að aðstoða sig á sviðinu. Fyrstu 10 sem mæta fá gefins töfradót. Sýningin hefst klukkan 19:30.

annska@bb.is

DEILA