10% aflasamdráttur á fyrstu sex mánuðunum

Heildarafli íslenska flotans á fyrri helmingi fiskveiðiársins, frá 1. september 2016 til loka febrúar 2017, var um 48 þúsund tonnum minni en á sama tímabili fiskiveiðiárið á undan. Aflinn nam tæpum 425 þúsund tonnum upp úr sjó á yfirstandandi fiskveiðiári, en var á sama tímabili í fyrra 472 þúsund tonn, sem er um 10% samdráttur. Meginskýringin á þessu er sjómannaverkfallið sem stóð í um 8 vikur. Mun meira eftir af aflamarki Á fyrri helmingi yfirstandandi fiskveiðiárs veiddu íslensk skip tæplega 31 þúsund tonni minna af þorski úr sjó en á fyrra ári. Samdráttur í ýsuafla var um 7,5 þúsund tonn. Heildaraflinn í botnfiski er á fyrri helmingi fiskveiðiársins tæp 176 þúsund tonn upp úr sjó en var 240 þúsund tonn á sama tímabili í fyrra. Þetta er um 27% samdráttur. Á fyrri helmingi fiskveiðiársins nam uppsjávarafli íslenskra skipa 246 þúsund tonnum. Milli ára varð talsverð aukning í makríl og loðnu en samdráttur í kolmunna.

Á miðju fiskveiðiári 2016/2017 höfðu aflamarksskip einungis nýtt um 42% af aflaheimildum sínum í þorski (er þá tekið tillit til flutnings heimilda frá fyrra fiskveiðiári, sérstakra úthlutana auk almennrar úthlutunar á grundvelli aflahlutdeildar). Á fyrra fiskveiðiári var þetta hlutfall 58% þannig að þarna eru áhrif verkfallsins augljós, segir á vef Fiskistofu. Þegar litið er til aflamarks í ýsu á sama tímabili þá hafa aflamarksskip veitt nýtt 30% ýsukvótans en 33% á fyrra ári. Í heildina þá hafa aflamarksbátar notað 35% af heildaraflamarki sínu fyrir yfirstandandi fiskveiðiár en 47% á fyrra ári.

Í heildina hafa krókaaflamarksbátar notað 48,9% af heildaraflamarki sínu fyrir yfirstandandi fiskveiðiár en 50,8% á fyrra ári. Krókaaflamarksaflinn og kvótastað- an eru því í góðu jafnvægi sem bendir til að verkfallið hafði þar minni áhrif eins og búast mátti við.

smari@bb.is

DEILA