Vestfirðingar dönsuðu gegn ofbeldi

Það var fjör í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í hádeginu á föstudag. Mynd: Matthildur Helgadóttir Jónudóttir.

Á síðasta föstudag fór fram víða um heim dansbyltingin Milljarður rís, þar sem fjöldi fólks brast í dans gegn kynbundnu ofbeldi, en með því að taka þátt í dansinum var fólk að taka afstöðu gegn ofbeldi gegn konum, sem er vandamál um allan heim. Á Íslandi var dansað á 12 stöðum í ár og var samtakamátturinn í dansinum áþreifanlegur er dansbyltingin reið yfir landið. Á Vestfjörðum var komið saman á tveimur stöðum, í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og í Hnyðju á Hólmavík. Á hvorum stað fyrir sig komu um 100 manns saman til að dansa og var mikill kraftur í mannskapnum.

Það er UN Women sem stendur fyrir dansbyltingunni og Íslandsdeild þeirra fyrir dansinum hér á landi en hér var með dansinum minning Birnu Brjánsdóttur heiðruð. Þá var vakin athygli á verkefninu Öruggar borgir þar sem UN Women vinnur að því að gera borgir öruggari fyrir konur og stúlkur víða um heim í samstarfi við borgaryfirvöld að einföldum og ódýrum aðgerðum sem miða að því að uppræta og draga úr ofbeldi gegn konum og stúlkum á almenningssvæðum. UN Women á Íslandi hvetur alla til að taka þátt í að gera borgir öruggari fyrir konur og stelpur með því að senda sms-ið Konur í 1900 (1000 kr.)

annska@bb.is

DEILA