Svarta gengið sýnd á Ísafirði

Á föstudagskvöldið verður sýnd í Ísafjarðarbíói heimildarmyndin Svarta gengið eftir Kára G. Schram. Í myndinni er sagt af Þorbirni Péturssyni, Bjössa, fjárbónda og einsetumanni á Ósi í Arnarfirði sem þurfti að bregða búi í kjölfar veikinda og var hann tilneyddur til að fella allt sitt fé. Þar á meðal var hópur kinda sem Bjössi kallaði Svarta Gengið sem hann hafði alið sérstaklega og náð sterku tilfinningasambandi við. Ekki kom til greina að senda Svarta Gengið í sláturhús og í kjölfarið ákvað hann að heiðra minningu mállausra vina sinna með þeim hætti sem honum fannst við hæfi og grafa þær í túninu heima. Jafnframt sótti hann um leyfi yfirvalda að fá að hvíla þeim við hlið þegar þar að kæmi.

Svarta Gengið, sem ber undirtitilinn saga um ást, dauða, bónda og fé er tæpur klukkutími að lengd og var hún frumsýnd í nóvember. Fékk myndin afar góða gagnrýni í Morgunblaðinu þar sem hún fékk fjórar og hálfa stjörnu. Gagnrýnandi myndarinnar Hjördís Stefánsdóttir sagði þar frásögnina einlæga og hún næði kærkominni nánd við persónu sína í hennar náttúrulega umhverfi. Jafnframt sagði hún: Kári varðveitir með myndinni dýrmæta arfleifð þjóðarinnar og dregur líkt og í fyrri verkum sínum upp lifandi lýsingu af einstakri persónu sem svo sannarlega á erindi við komandi kynslóðir. Þorbjörn reisti kindum sínum minnisvarða og Kári heiðrar svo ævistarf Þorbjörns og hverfandi lifnaðarhætti með þessari undurfallegu, raunsönnu mynd.

Nú eiga Vestfirðingar kost á því að berja myndina augum og hefst sýning hennar í Ísafjarðarbíói klukkan 19 föstudagskvöldið 17.febrúar. Aðstandendur myndarinnar koma með á Ísafjörð og bjóða gestum að sýningu lokinni til móttöku í Turnhúsinu í Neðstakaupstað.

Önnur sýning verður kl. 19:00 á laugardag.

annska@bb.is

DEILA