Sund og pottaaðstaða – vinningstillaga liggur fyrir.

Daníel Jakobsson

Niðurstaða úr hönnunarsamkeppni um sundhöll liggur nú fyrir. Þetta eru um margt skemmtilegar tillögur en breyta ekki helstu staðreyndum í þessu máli. Almenningi finnst þetta ekki skemmtilegur staður, aðgengi að húsinu er slæmt og breytingarnar eru kostnaðarsamar og fela í sér að ekki verður hægt að byggja nútíma sundlaug í tengingu við pottaaðstöðuna. Ef einhvern tímann ætti að koma 25 metra laug væri ekki hægt að koma henni fyrir þarna. Finna yrði henni annan stað.

Talað er um að kostnaðurinn við þessar breytingar/viðbyggingu séu að lágmarki 450 m.kr. Inn í þeirri tölu er ekki gert ráð fyrir breytingum á sundlauginn sjálfri, hún verður eins. Ekki er heldur gert ráð fyrir nýju klórkerfi eða loftræsingu í húsið. Inn í þeirri tölur eru heldur ekki endurbætur á 3. hæð eða lagfæringar á íþróttasalnum eða utanhúsklæðingu á húsinu.

Mín skoðun er sú, og hefur bara styrkst með því að fá fram kostnaðinn við þessar tillögur, að ef gera á eitthvað í sundlaugarmálum í Skutulsfirði þá ætti að byggja þessa aðstöðu sem nú er rætt um á Torfnesi. Það yrði sennilega ódýrari framkvæmd og betri staður hvað varðar aðgengi og veður. Þar væri hægt að samnýta búningsklefa og starfsfólk og í framtíðinni ef vilji stendur til væri hægt að gera þar 25 metra laug.

Við þurfum líka að þora að velta upp þeim möguleika að sundlauginn okkar sem búum í Skutulsfirði verði í Bolungarvík sem er í 10 mínútna akstursfjarlægð. Þar væru byggð upp sundlaugarmannvirki með 25 metra laug, en hér á Ísafirði kæmi fjölnota (knattspyrnu) íþróttahús og líkamsræktaraðstaða. Þannig myndum við nýta takmarkað fjármagn betur sem gerir okkur kleift að nýta peningana okkar í fleiri skemmtileg verkefni í stað þess að eiga tvær (fimm) sundlaugar á svæðinu.

Því má svo reyndar bæta við að á fundi bæjarráðs með Vestra um fjölnota knattspyrnuhús var því velt upp af meirihlutanum hvort að framtíðarstaðsetning knattspyrnu væri á Torfnesi og ef svo væri hvort að ekki væri heppilegra að staðsetja húsið við íþróttahúsið en ekki vallarhúsið. Það lýsir þeirri stöðu sem var ástæða þess að settar voru 10 m.kr. árið 2014 í að skipuleggja Torfnessvæði hvað ætti að vera hvar. Horfið var frá þeirri skipulagsvinnu og farið í samkeppni um sundhöllina í staðinn. Við stöndum því uppi með það núna þegar fjármagn liggur fyrir í knattspyrnuna að öll skipulagsvinna er eftir og þ.a.l. mun hugsanlega ekki vera hægt að hefja vinnu við uppbygginu á Torfnesi fyrr en á næsta ári.

Daniel Jakobsson

DEILA