Stormur kominn á besta stað í stofunni

Dísa og Stefán Máni er þau skiptust á verkum

Ung bolvísk listakona, Valdís Rós Þorsteinsdóttir, varð þeirrar óvæntu ánægju aðnjótandi að selja sína fyrstu mynd á dögunum, eftir að faðir hennar Þorsteinn Másson birti mynd af henni með verkið „Storm“ á Twitter. Valdís sem iðulega er kölluð Dísa og er níu ára gömul, hefur þrátt fyrir ungan aldur sýnt sérlega góða færni í gerð olíumálverka eftir að hafa á síðasta ári farið að horfa á kennslumyndbönd á YouTube þar sem Bob Ross leiðir áhorfendur í gegnum helstu trixin við svokallaða wet-on-wet tækni. „Við fórum að fikra okkur áfram eftir þessum myndböndum og Dísa sýndi strax að hún er „natural talent.“ Segir Steini pabbi Dísu í spjalli við blaðamann, en hún hafði mikið teiknað fram að því.

Það var enginn annar en rithöfundurinn Stefán Máni sem keypti myndina. Stefán Máni er myndlistarunnandi og segist strax hafa fallið fyrir myndinni er hann sá hana á Twitter og kannað hvort hún væri föl. „Steini, sem umboðsmaður listakonunnar, stakk upp á vöruskiptum sem hentaði bara prýðilega en ég samt von á því að verðskrá listamannsins fari hækkandi úr þessu.“ Segir Stefán Máni um listaverkakaupin:

„Við hittumst svo á Grillhúsinu og bíttuðum á verkum. Ég fékk málverkið og Valdís fékk árituð eintök af Svartagaldri og Döprustu stúlku í öllum heiminum. Það var mjög gaman að hitta þau feðgin. Steini er mikið ljúfmenni og Valdís Rós jafnsæt og krúttleg og hún er klár. Held að framtíðin sé hennar, hvað sem sem hún mun taka sér fyrir hendur. Myndin er kominn upp á vegg á besta stað í stofunni heima hjá mér. Ekki amalegt að vera með Vestfirska sjávarmynd fyrir augunum alla daga!“ Vestfirskra tengla gætir í þeim verkum sem skipst var á, stormurinn sem stundum ýfir hafflötinn við Vestfirði í verki Dísu og í Svartagaldri er súðvíski lögreglumaðurinn Hörður Grímsson í aðalhlutverki.

Unga listakonan er hógvær og ekkert mikið fyrir að ræða heiðurinn að sögn föður hennar, en hann segir að hún sé þó afar ánægð með söluna á Stormi. Dísa getur strax sest við lesturinn á Döprustu stúlkunni í öllum heiminum, en Svartigaldur bíður betri tíma og segir Steini að hún muni eflaust kunna að meta hana þegar hún verður eldri, en líkt og flestir vita er Stefán Máni hve þekktastur fyrir skrif á glæpasögum af myrkari sortinni.

annska@bb.is

DEILA