Stöndum saman Vestfirðir afhentu hjartastuðtæki

Í gær afhentu forsvarskonur samskotasjóðsins Stöndum saman Vestfirðir þrjú hjartastuðtæki til Lögreglunnar á Vestfjörðum. Tækin fara í lögreglubíla á Ísafirði, Patreksfirði og Hólmavík og með tilkomu þeirra eru allir lögreglubílar á Vestfjörðum útbúnir slíkum tækjum. Þetta er þriðja söfnunin sem SSV stendur fyrir undanfarið ár og hafa þegar fyrir tilstuðlan hans verið afhent barkaþræðingartæki og sprautudælur á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði og sjúkrarúm á HVEST á Patreksfirði, auk áður nefndra hjartastuðtækja til Lögreglunnar.

Söfnun þessi sló öll met í tímalengd söfnunar, því einungis tók það Vestfirðinga rúmar tvær vikur að klára að fjármagna tækjakaupin og segjast forsvarkonurnar Tinna Hrund Hlynsdóttir, Steinunn Einarsdóttir og Hólmfríður Bóasdóttir verulega glaðar með hvernig til tókst: „Þegar við sameinum krafta okkar þá getum við gert stórkostlega hluti saman. Við erum auðvitað að springa úr stolti og ánægju.“ Þær segja allar sem lagt hafa söfnuninni lið mega gefa sjálfum sér klapp á bakið og segja gaman að sjá hvernig þessi þriðja söfnun virtist ná vel til fólks, sem var duglegt að leggja henni lið sem og að láta vita af henni með því að dreifa upplýsingum á samfélagsmiðlum.

Næsta söfnun sjóðsins verður í haust og ekki liggur ljóst fyrir á þessari stundu hver hún verður. Stjórn SSV er opin fyrir samstarfi við önnur félög ef einhverjir eru að horfa til þess að fara í stórar fjáraflanir. Reikningur sjóðsins (Kt. 410216-0190 Banki 156-26-216) er þó alltaf opinn og hafa einhverjir brugðið á það ráð að hafa hann inn í mánaðarlegum greiðslum og rennur allt það sem inn í sjóðinn kemur til þeirra verkefna sem eru styrkt hverju sinni.

annska@bb.is

DEILA