Saltkjöt og baunir, túkall!

Í dag er sprengidagur, en svo nefnist síðasti dagur fyrir lönguföstu, næstur á eftir bolludegi og á undan öskudegi í föstuinngangi. Á þessum degi tíðkast á að bjóða upp á saltkjöt og baunir á íslenskum heimilum og belgja sig út, þó ekki séu margir sem enn viðhaldi þeirri hefð að fasta í kjölfarið. Oftast er boðið upp á baunasúpu með grænmeti, kartöflum, rófum og gulrótum og jafnvel beikoni og saltað lambakjöt, ýmist elduðu sér eða soðnu í súpunni.

Þeim sem veikir eru fyrir hjarta ættu að fara sér varlega í saltkjötsátinu, en á sprengidag fjölgar þeim sem leita á Hjartagátt Landspítalans samkvæmt því sem Karl Andresen yfirlæknir þar sagði í viðtali við RÚV árið 2014. Sagði hann jafnframt að mikið saltaður matur eins og borðaður er á sprengidag sem og um jól og hátíðir getur verið varasamur fyrir þá sem eru veikir fyrir.

Lagstúfurinn „Saltkjöt og baunir, túkall“ er oft sunginn þegar sprengidagurinn fer að nálgast en er einnig oft sönglaður til merkis um að einhverju sé lokið, til dæmis skemmtiatriði. Það mun hafa verið skemmtikrafturinn Baldur Georgs sem var upphafsmaður þessa en lagstúfinn er að finna á plötu með Baldri og Konna frá 1954 og kann hann að hafa tekið þetta eftir bandarískum rakarakvartettum er segir á vef Wikipediu.

annska@bb.is

DEILA