Reykjanes gæti misst neysluvatnið

Kannski verður laugin í Reykjanesi bráðum heit aftur.

Hótel Reykjanes í Ísafjarðardjúpi stendur frammi fyrir því að geta misst allt neysluvatn vegna þess að eigandi jarðarinnar Reykjafjarðar hótar að skrúfa fyrir vatnslögnina. Reykjanes hefur um áratugaskeið fengið neysluvatn úr vatnsbóli í landi Reykjafjarðar. „Vegna þessa máls lítum við svo á að okkar rekstur sé uppnámi og geti fyrirvaralaust stöðvast. Stór hluti bókana fyrir sumarið 2017 hefur þegar átt sér stað og því óhugsandi að lenda í rekstrarstöðvun,“ segir í bréfi Jóns Heiðars Guðjónssonar, eiganda Ferðaþjónustunnar í Reykjanesi, til Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps þar sem hann óskar eftir aðstoð sveitarfélaganna.

Í bréfi sínu til sveitarfélaganna lét Jón Heiðar fylgja með tvö bréf sem Salvar Hákonarson, eigandi Reykjafjarðar, sendi Ferðaþjónustunni í Reykjanesi. Salvar segir í bréfi frá því í síðasta mánuði að bann sem hann hafi sett í maí 2015 við framkvæmdum á vatnsverndarsvæðinu hafi ekki verið virt. Hann hafi því ákveðið að öllum utanaðkomandi aðilum séu óheimil vatnsafnot í landi Reykjarfjarðar og taki sú ákvörðun strax gildi.

„Því miður hefur Ferðaþjónustan Reykjanesi ehf. haft með höndum framkvæmdir og jarðrask á svæðinu sem hvorki hefur verið leyfi fyrir eða samþykki landeigenda,“ segir í bréfi Salvars og ennfremur að eigendur Reykjaness séu að færa sér í nyt eigur og landgæði annarra og valda óbætanlegu tjóni á viðkvæmu svæði.

Jón Heiðar hafnar því að hafa lagst í framkvæmdir í óleyfi.

Í erindi Jóns Heiðars kemur fram að þegar ríkið seldi Reykjanesskóla hafi honum verið sagt frá samkomulagi við föður Salvars, þáverandi eiganda Reykjafjarðar, um um gjaldfrjáls afnot af neysluvatninu gegn því að heimilisfólkið í Reykjarfirði fengi endurgjaldslaus afnot af heitum böðum og sundlaug í Reykjanesi.

smari@bb.is

DEILA