Plast getur tekið aldir að brotna niður

Pokarnir sem fundust innan í gáshnallinum í Noregi, skjáskot úr fréttum RÚV.

Sífellt verður háværari umræðan um hverslags skaðvaldur plastúrgangur getur verið umhverfinu og lífríki jarðar. Í síðustu viku rataði í fréttir hér á landi sem víðar frétt sem sagði af rúmlega sex metra löngum gáshnalli sem synti ítrekað á land við Björgvin í Noregi. Hvalurinn var á endanum aflífaður og þá  kom í ljós að hann hafði innbyrt meira en þrjátíu plastpoka. Fjallað var um málið í kvöldfréttum RÚV á sunnudag þar sem sagði að plastmengun í hafi væri víða mikið vandamál og væri Ísland ekki undanskilið þó ekki hefði komið upp álíka mál hér á landi.

Í fréttinni var sagt frá hreinsunarátökum sem farið hefur verið í hér á landi og þar tekin dæmi um hreinsun á Hornströndum sem og á Rauðasandi, en hreinsunarferðir eru farnar árlega á Hornstrandir og þá komast yfirleitt færri með en vilja í þá leiðangra sem iðulega skila af sér gífurlegu magni af rusli.

Sigríður Kristinsdóttir sérfræðingur í haf- og vatnsstreymi hjá Umhverfisstofnun hvatti í fréttinni fólk til þess að minnka plastnotkun og flokka rusl, sem hún sagði afar mikilvægt í ljósi þess að það tekur plast langan tíma að brotna niður í náttúrunni – allt að hundruðum ára.

Einn liður í aukinni meðvitund fólks um málið er að hafna plastumbúðum hvarvetna sem því verður við komið. Verslunarfólk er að verða meðvitaðra um þetta líkt og sagt var frá í viðtali við fisksalann Kára Jóhannsson í Fiskbúð Sjávarfangs.

annska@bb.is

DEILA