Bændur sem ráða til sín sjálfboðaliða til vinnu brjóta lög. Þetta er mat Alþýðusambands Íslands og formanns Bændasamtakanna og greint er frá í Fréttablaðinu. Þar segir að á vefsíðunni Workaway séu 180 auglýsingar þar sem Íslendingar óski eftir sjálfboðaliðum til vinnu. Í flestum tilvikum er um að ræða störf í landbúnaði. Á annarri síðu, Helpx, eru 76 íslenskar auglýsingar.
Alþýðusambandið hefur með Starfsgreinasambandinu og Samtökum atvinnulífsins skorið upp herör gegn sjálfboðavinnu í landbúnaði. „Um störf í landbúnaði gilda kjarasamningar og því í trássi við lög og kjarasamninga að ráða ólaunað vinnuafl í þessi störf,“ er haft eftir Dröfn Haraldsdóttur, sérfræðingi hjá ASÍ.
smari@bb.is