Oddi hf fagnar fimmtíu ára afmæli

Það eru nú liðin fimmtíu ár frá því að Jón Magnússon, Lilja Jónsdóttir, Hjalti Gíslason, Helga Pálsdóttir og Sigurgeir Magnússon stofnuðu Odda hf á Patreksfirði og má því telja að fyrirtækið sé sem með þeim elstu í þessari atvinnugrein. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að félagið hafi gengið í gegnum margan öldudalinn en hefur ávallt reynt að halda uppi stöðugri starfsemi og þannig tryggt stöðuga vinnu og tekjuöflun. Félagið var stofnað sem fiskvinnsla og hélt því allt til ársins 1990 er félagið hóf sína fyrstu útgerð. Eftir það hefur félagið verið lykilfyrirtæki á Patreksfirði en í dag starfa þar um 75 manns.

Í mars ætla starfsmenn og eigendur að halda upp á afmæli fyrirtækisins og skella sér með manni og mús til Tenerife, í för verða bæði makar og börn og er gert ráð fyrir að í ferðina fari um 140 manns.

Fyrirtækið fyrirhugar að fagna tímamótunum síðar á árinu og gefa þar með bæjarbúum, starfsmönnum og viðskiptavinum félagsins tækifæri til að fagna með þeim.

bryndis@bb.is

 

DEILA