Nóg um að vera í Fræðslumiðstöðinni

Það er alltaf nóg um að vera við Fræðslumiðstöð Vestfjarða og er þar boðið upp á hvert áhugaverða námskeiðið á fætur öðru og er óhætt að segja að fjölbreytni námskeiðanna spanni vítt áhugasvið. Á mánudag hefst þar námskeiðið WordPress – vefurinn minn, þar sem Birgir Þór Halldórsson kennir heimasíðugerð með litlum tilkostnaði en WordPress er eitt vinsælasta vefumsjónarkerfið í heiminum í dag. Þá hefst námskeið í vefnaði á þriðjudag, þar sem Sigrún Guðmundsdóttir kennir grunn aðferðir í vefnaði og hvernig útfæra má þær á fjölbreyttan hátt í mismunandi efni. Námskeiðið verður haldið í vefstofu úr Húsmæðraskólanum Ósk sem er nú staðsett í Barnaskólanum í Hnífsdal. Á þriðjudag verður einnig námskeiðið Veðurfræði – Veðurspár, þar sem Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur fjallar um gagnsemi tölvuspáa og leiðir um frumskóg þeirra á vefnum. Hverjar þeirra eru hentugar og hvað ber að varast í þessum efnum, ekki síst fyrir vestan. Hversu langt fram í tímann er hægt að spá með þessum aðferðum? Námskeiðið miðast sérstaklega við sjómenn en er gagnlegt öllu áhugafólki um veður.

Þann 4. mars verður svo boðið upp á námskeið þar sem kennt verður að gera súrkál og annað sýrt grænmeti, en mjólkursýring er ævagömul náttúruleg leið til að geyma grænmeti. Kennslan verður bæði í formi fyrirlesturs Dagnýjar Hermannsdóttur og sýnikennslu. Boðið verður upp á smakka á um tuttugu útgáfum af sýrðu grænmeti og þátttakendur fá bækling þar sem tekin eru saman helstu atriði sem hafa þarf í huga auk nokkurra uppskrifta.

annska@bb.is

 

DEILA