Vinsælt getur verið hjá þeim sem sækja Vestfirði heim að kíkja í heimsókn á Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík og ekki hefur síður heimafólk gaman af heimsókn þangað, þá sér í lagi yngri kynslóðin. Í gær kom þangað í áhugasamur hópur úr Grunnskólanum í Bolungarvík og komu krakkarnir með tvær beinagrindur sem þeir höfðu fundið í fjöruferð við Bug og vildu fá greiningu á. Beinagrindurnar sem þau fundu voru annarsvegar af tjaldi og svo var þar stærri, heilleg beinagrind sem ungu rannsóknarmennirnir töldu nokkuð víst að væri af hinum sjaldséða fjörulalla, en einnig kom til greina að þar væri um að ræða kind.

Á vefsíðu tileinkaðri íslenskum kynjaskepnum sem nemendur í Laugarlækjarskóla unnu, segir að fjörulalla sé að finna víða með fram ströndum landsins, þó ekki hafi hans verið vart alls staðar og algengastur sé hann við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Fjörulalla er ekki að mörgu getið í fornum ritum en kemur fyrst fram á 19.öld. Þá var það 13 ára strákur sem sá hann þegar hann fór út í sker á Breiðafirði. Lýsing hans á Fjörulalla hljóðar svo: „Það var á stærð líkt og meðalstór hundur en þó öllu digurra, lágfætt og lubbalegt með rófu líkt og kind. Ekki kvaðst hann hafa getað greint hvort út úr haus þess stóðu eyru eða lítil horn og eigi gat hann heldur greint lögun á skoltum þess því alltaf sneri það afturhlutanum að honum. Þess var getið til að þarna hefði verið fjörulalli.“

Ekki eru allir allir sannfærðir um tilvist fjörulalla fremur en annarra furðuskepna, en stundum er ágætt að hafa það sem ævintýralegra reynist.

Cristian Gallo starfsmaður Nave skoðar beinagrindina með hinum áhugasömu rannsóknarmönnum. Mynd af Fésbókarsíðu NAVE

annska@bb.is

DEILA