Íslensk nálægðarregla

Teitur Björn Einarsson

Vestfirðingar þekkja vel hætturnar sem fjarlægt ríkisvald og miðstýring hafa í för með sér. Of víðtækt vald í á einum stað getur aldrei verið forsenda frjálslynds samfélags þar sem athafnafrelsi og staðbundin þekking fær notið sín. Í störfum mínum á Alþingi horfi ég annars vegar til þess hvernig tempra megi afskipti opinberra aðila af daglegu lífi fólks og hins vegar hvernig sporna megi gegn óhóflegri miðstýringu þess valds og verkefna sem opinberir aðilar þurfa að fara með.

Í Evrópusambandinu hefur verið vísað til svokallaðrar nálægðarreglu sem mótvægi við síaukinni miðstýringu yfirþjóðlegu stofnana þess. Sú regla er reyndar ekki hátt skrifuð þar á bæ en hún gengur í stuttu máli út á að ákvarðanir sem varða réttindi og skyldur fólks skuli ekki teknar á hærra stjórnsýslustigi en nauðsynlegt er. Verkefni sem sveitastjórnir sinna og geta sinnt eiga þannig ekki að vera á borði ríkisins. Markmiðið er að ákvarðanir skulu teknar eins nálægt fólki og mögulegt er enda vegur þekking og reynsla af staðháttum oftar en ekki mun þyngra en framtíðarstefnumótun og sviðsmyndagreiningar í fjarlægum ríkisstofnunum. Íslenska útgáfan af nálægðarreglunni, ef hana er á annað borð að finna innan stjórnsýslunnar, virðist reyndar vera sú að allt vald skuli vera eins nálægt Reykjavík og mögulegt er og þá helst ekki utan höfuðborgarsvæðisins.

Innan umhverfisráðuneytisins er nú unnið að gerð frumvarps um skipulag haf- og strandsvæða og samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að það verði lagt fyrir þingið í mars næstkomandi. Vaxandi eftirspurn er eftir athafnasvæðum á haf- og strandsvæðum og aukning í starfsemi kallar réttilega á heildstæðari löggjöf um skipulagningu slíkra svæða. Í frumvarpsdrögunum, sem kynnt hafa verið á vef ráðuneytisins, er gert ráð fyrir að skipulagsvaldið verði í höndum ríkisins en þó með aðkomu þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli hverju sinni. Því uppleggi í frumvarpsdrögunum er ég ósammála.

Skynsamlegra er að byggja á meginreglu gildandi skipulagslöggjafar og leggja málið þannig upp að skipulagsvald strandsvæða verði í höndum sveitarfélaga en samkvæmt núgildandi löggjöf nær skipulagsvald sveitarfélaga út að svokölluðum ytri mörkum netlaga, eða 115 metra út á sjó frá stórstraumsfjörumáli að telja. Einfalt er með lögum að færa þau mörk lengra út á sjó, til dæmis sem nemur einni sjómílu. Ríkið færi eftir sem áður með forræði á hafinu þar fyrir utan. Skipulagsstofnun myndi svo vera gert að staðfesta skipulag strandsvæðis hvers sveitarfélags til að tryggja að skipulagið á hverjum stað væri í samræmi við landsskipulagstefnu ríkisins. Þegar skipulögð væri starfsemi sem næði samkvæmt eðli sínu til strandsvæðis fleiri en eins sveitarfélags væri lögboðið að samliggjandi sveitarfélög hefðu með sér samráð innan svæðisráðs við gerð skipulags fyrir þess háttar starfsemi. Ég mun beita mér fyrir því að tekið verði mið af þessum sjónarmiðum þegar frumvarpið kemur til umræðu og afgreiðslu á þingi.

Með þannig fyrirkomulagi verður tryggt að skipulagsvald strandsvæða, eins og til að mynda fyrir starfsemi fiskeldis eða ferðaþjónustu, verði á ábyrgð kjörinna fulltrúa heimamanna á hverju svæði og íbúar hafi greiðari aðkomu að ákvarðanatöku um skipulag í sínu nærumhverfi en frumvarpsdrögin gera ráð fyrir. Í hverju byggðalagi er saman komin mikil staðbundin þekking og reynsla. Íbúar þekkja af eigin raun hvaða möguleikum eða takmörkunum í umhverfinu taka verður mið af þegar strandsvæði er skipulagt með ákveðna starfsemi í huga eða svo saman geti farið ólík starfsemi. Ákvarðanir sem teknar eru af aðilum sem ekki þekkja samfélag og staðhætti strandsvæðisins verða síður í samræmi við vilja og þarfir fólksins sem þar býr. Deilur og ósætti sem af slíkum ákvörðunum hljótast geta skapa hættulega togstreitu milli borga og landsbyggðar eins og í dag má sjá víða í evrópskum og bandarískum stjórnmálum.

Teitur Björn Einarsson

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

 

DEILA