Það dró til tíðinda í vestfirsku körfuboltalífi í sunnudaginn þegar Vestradrengir í 9. flokki lögðu Fjölni í undanúrslitum bikarkeppni Körfuknattleikssambandsins. Leikurinn fór fram í Rimaskóla í Reykjavík og endaði 56 : 49 Vestra í vil. Vestri mun því leika til úrslita um bikarmeistaratitilinn aðra helgina í febrúar í Laugardalshöll. Þetta er í fyrsta sinn síðan 1998 sem Vestfirðingar leika til úrslita um bikarmeistaratitil en þá mætti meistaraflokkur KFÍ Grindvíkingum.
Seinni undanúrslitaleiknum er á föstudaginn þegar Valur og ÍR mætast og kemur þá í ljós hvort liðið verður mótherji Vestra.
Á vefsíðu Vestra segir að ef til vill hafi fáir átt von á sigri Vestra í þessum leik því Vestri tefldi aðeins fram sex leikmönnum. En þótt liðið sé fámennt er þar að finna frábæra körfuboltamenn og umfram allt góðan liðsanda sem á stærstan þátt í velgengni liðsins.
Lið Vestra er skipað Hilmi og Huga Hallgrímssonum, Agli Fjölnissyni, Blessed og James Parilla auk Friðriks Vignissonar frá Hólmavík. Þjálfari er Yngvi Gunnlaugsson.
smari@bb.is