Fyrirliðatreyjan fór á 1,2 milljónir

Andvirði treyjunnar var afhent í vikunni.

Á Kútmagakvöldi Lionsklúbbs Patreksfjarðar 15. október 2016 gerðist það að boðin var upp treyja Arons Einars Gunnarssonar fyrirliða íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Leitað hafði verið til Arons að fá treyjuna í þeim tilgangi og varð hann góðfúslega við því en vísaði málinu til starfsfólks KSÍ til úrlausnar. Þau skilaboð bárust að treyjan yrði send vestur með mikilli gleði og árituð af leikmönnum landsliðsins. Það skilyrði fylgdi afhendingunni að andvirði treyjunnar skyldi renna til uppbyggingar á knattspyrnustarfi á sunnanverðum Vestfjörðum. „Það er skemmst frá að segja að treyjan var boðin upp á hátíðinni með tilgreindum skilmálum. Hátíðargestir allt karlar sýndu uppboðinu mikinn áhuga og mikil stemming myndaðist. Skjöldur Pálmason forstjóri Odda á Patreksfirði stóð fyrir uppboðinu af alkunnri röggsemi. Fljótlega hlupu boðin á hundruðum þúsundum og tilboðsgjafarnir hvattir ákaflega. Öflugir aðilar tókust á um treyjuna og hver um sig ætlaði sér hana,“ segir Úlfar B Thoroddsen, ritari Lionsklúbbs Patrekfjarðar. Svo fór að treyjan var slegin hæstbjóðanda á kr. 1.200.000 við mikil fagnaðarlæti.

Þann 7. febrúar  fóru  Eiður B Thoroddsen formaður Lionsklúbbs Patreksfjarðar, Úlfar B Thoroddsen ritari og Gunnar Sean Eggertsson gjaldkeri í íþróttahúsið á Patreksfirði á fund Páls Vilhjálmssonar íþróttafulltrúa á sunnanverðum Vestfjörðum og færðu honum  andvirði treyjunnar dýru eða kr. 1.200.000 til eflingar knattspyrnustarfs á svæðinu. Tók Páll við gjöfinni umkringdur ungum knattspyrnuiðkendum. Páll er jafnframt framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Hrafnaflóka og skólastjóri íþróttaskóla sambandsins sem starfræktur er í öllum þéttbýlum á sunnanverðum Vestfjörðum.

Kútmagakvöld hafa verið haldin hvert ár á vegum Lionsklúbbs Patreksfjarðar frá 17. mars 1979 fram til þessa.

smari@bb.is

DEILA