Framtíðarsýn í sundlaugarmálum Ísfirðinga

Gauti Geirsson

Þrátt fyrir ágætar og margar hverjar snjallar niðurstöður arkitektasamkeppni um lausnir tengdar Sundhöll Ísafjarðar er ennþá aðalspurningunni ósvarað í sambandi við sundlaugarmál Ísfirðinga, hver er framtíðarsýnin? Fyrir liggur þverpólitískt ferli frá síðasta kjörtímabili um uppbyggingu íþróttamannvirkja en ef það er ekki vilji til þess að vinna eftir því, hefði farið vel á að vinna betur í framtíðarsýninni áður en lagst var í dýra arkitektasamkeppni. Tilvalið hefði verið að halda íbúafundi, tala við íþróttahreyfinguna og skapa einhverskonar sameiginlega sýn eða sátt um málið. Ég held að sterk viðbrögð við tillögunum þessa dagana endurspegli það samráðsleysi sem liggur að baki vinnunni.

Úrelt aðstaða

Það var nefnilega trú á framtíðinni og staðnum sem réð ríkjum þegar ákveðið var að ráðast í byggingu á Sundhöll Ísafjarðar fyrir rúmum 70 árum. Það var hvorki ódýrt né létt verk en með samvinnu lögðust bæjarbúar og ýmiskonar félög á árarnar og unnu saman að því að reisa þessa glæsilegu byggingu. Tíminn líður hins vegar og aðstaðan er orðin algjörlega úrelt. Fyrir liggur að bæði er ákall um að fá fullnægjandi aðstöðu til sundiðkunar, æfingar-og keppnisaðstöðu með 25 metra laug með flötum bökkum sem er lágmarkskrafa sundfólks í dag og hins vegar að fá útiaðstöðu með heitum pottum. Niðurstöður arkitektasamkeppninnar uppfylla aðeins annað af þessum skilyrðum sem er bagalegt, sérstaklega þar sem það mun kosta rúmlega hálfan milljarð sem óneitanlega seinkar frekari framkvæmdum á sundaðstöðu í bænum.

Í umræðum um málið virðast margir tengja fyrirhugaðar framkvæmdir við að halda lífi í Sundhöll Ísafjarðar. Sundhöllin mun hins vegar áfram verða glæsileg bygging þrátt fyrir að sundlauginni yrði lokað. Í húsnæðinu er starfrækt dægradvöl, félagsmiðstöð, íþróttahús, skrifstofur auk þess sem vel er hægt að finna sundlaugarrýminu nýtt hlutverk. Það hefur tekist vel á Ísafirði að finna gömlum húsum ný hlutverk og ætti það áfram að heppnast vel.

Horft til framtíðar

Ég er algjörlega sammála þeim sem hafa lýst því yfir að Torfnes komi helst til greina fyrir sundlaugarmannvirki í Skutulsfirði. Á Torfnesi eru til drög að 25 metra sundlaug á milli íþróttahússins og grasvallarins. Ég vil benda á að á Hólmavík (sem er á köldu svæði) og Tálknafirði eru 25 metra sundlaugar en engin á norðanverðum Vestfjörðum. Sundiðkendur fengju löglega aðstöðu til móta og æfinga og opnunartími myndi stóraukast enda þyrfti ekki að loka lauginni á meðan æfingar fara fram. Aðgengi er gott, staðsetningin er frábær, íþróttahúsið myndar gott skjól fyrir innlögninni og þar er sólríkt. Það sýndi sig vel á 150 ára afmæli Ísafjarðar í sumar þegar afmælisgestir flatmöguðu í sólinni. Staðsetningin er í reynd svo góð að mínir góðu vinir, Gísli Halldór bæjarstjóri og Gerður ákvaðu meira segja að kaupa sér hús þarna rétt fyrir ofan fyrir ekki alls löngu. Þarna yrði skemmtilegt útisvæði með heitum pottum sem gæti verið fyrsti áfangi í verkinu. Í framhaldinu væri hægt að útfæra líkamsræktaraðstöðu við anddyri íþróttahússins með útsýni yfir Pollinn. Aukinn ferðamannastraumur bæði á sumrin og veturna kallar einnig á aðlaðandi sundaðstöðu sem dregur til sín fólk fyrir utan að raunveruleg sundmenning gæti skapast á Ísafirði. Þetta verkefni er stórhuga langtímaverkefni en með því að skipta því niður í viðráðanlega bita yrði bærinn, með nútíma sund og líkamsræktaraðstöðu, mun samkeppnishæfari í að laða til sín ungt fólk.

Ég kalla eftir því sem framtíðaríbúi Ísafjarðar að eftir erfið ár sem bærinn okkar hefur gengið í gegnum að nú þegar allt er að hjarna við, leyfum við okkur að hugsa til lengri tíma. Ég skora á bæjarstjórnina að taka til greina mismunandi sjónarmið í þessu máli, staldra við og vinna í átt að betri lausn með bæjarbúum.

Gauti Geirsson, sundáhugamaður og nemi

DEILA