Framtíð unga fólksins á Vestfjörðum

Í nýlegri  grein Magnúsar Reynis Guðmundssonar í BB fjallar hann um hagsmuni í fiskeldi og bendir réttilega á að huga þurfi að stjórnsýslunni og hagsmunum. Ég tek undir með Magnúsi og við höfum bent á að verði fiskeldisáform að veruleika á Vestfjörðum muni meiri hagsmunum fórnað fyrir minni. 

Engin heildarstefnumótun liggur fyrir frá ríkisstjórn eða sveitarfélögum um fiskeldi yfirhöfuð né um stærðarmörk atvinnugreinarinnar. Engin virðing er borin fyrir 8. gr. laga um náttúruvernd  sem nær til vatnasvæða og hollustuverndar hafsins.  Í dag er brotið á eða farið á svig við fjölda laga, reglugerða og opinberra siðvenja auk skerðingar fiskveiða og siglingaleiða til þess eins að því er virðist að skapa óskilgreind verðmæti.

Sveitarfélögin sitja uppi með allan kostnað við undirbúning, rannsóknir, mengunarvarnir, eftirlit, hafnar- og vegaframkvæmdir.

Þannig græða fáeinar fjölskyldur og milliliðir á tá og fingri, ekki síst vegna sofandaháttar íslenskra yfirvalda sem stunda þá iðju að veita aflandsfyrirtækjum eldisleyfi gegn óverulegu gjaldi.  Í  Noregi kostar 1.000 tonna leyfi  1,3 milljarða króna en nánast ekkert á Íslandi.

 Sveitarstjórnir á Vestfjörðum virðast ekki hafa  áttað sig á aðalatriðum þessa máls.

 Lax- og silungveiði á Íslandi er atvinnugrein sem byggist á sjálfbærni í hreinni og óspilltri náttúru. Greinin veltir árlega 15 – 20 milljörðum  króna og skapar um 1200 störf. Í kringum greinina hefur skapast mikil fagþekking, menning, hefðir og náttúrunytjar sem standa undir mjög verðmætri alþjóðlegri ímynd sem byggist á trúverðugleika.  Allar vörur frá landinu og ferðaþjónustan geta notið góðs af slíkri ímynd í sinni markaðssetningu.  Við teljum því að gangi fyrirhuguð fiskeldisáform eftir sitji Vestfirðingar eftir með sárt ennið og eigendur veiðihlunninda á öllu Íslandi muni stórskaðast, eins og dæmin sanna af slysafréttum undanfarinna daga.

Magnús víkur að kaupum breskra auðkýfinga á íslenskum bújörðum. Sjálfur hef ég aldrei selt neina jörð en reynt að kaupa jarðir og oftar en ekki orðið af kaupunum vegna bullandi samkeppni að því ég tel vegna gjaldeyrisútboðs Seðlabanka. Jarðakaup erlendra aðila á NA-landi eru mér gjörsamlega óviðkomandi.  Í einu tilfelli hef ég aðstoðað erlendan fjárfesti við að koma upp ferðamannaðstöðu í Fljótum í Skagafirði einkum vegna áforma hans um að bjóða græna og vistvæna ferðaþjónustu í takt við alþjóðlega hágæðaímynd.

Á Vestfjörðum eru fimmtán hundruð börn og unglingar á skólaskyldualdri.  Stóru tækifæri þeirra liggja í ferðaþjónustu og skapandi greinum sem byggja á óspilltri nátttúrunni.  Öflugir fjárfestar vilja vera með í slíkri uppbyggingu og framtíð komandi kynslóða á Vestfjörðum.

Orri Vigfússon

 

DEILA