Engar uppsagnir í verkfallinu

Finnbogi Sveinbjörnsson

Vestfirskar fiskvinnslur hafa ekki sagt upp starfsfólki vegna sjómannaverkfallsins að sögn Finnboga Sveinbjörnssonar, formanns Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Hann segir stöðuna í verkfallinu grafalvarlega. „Við höfum ekki fengið neinar tilkyninngar um uppsagnir í skilningi laganna. Tvö fyrirtæki, Íslenskt sjávarfang á Þingeyri og Oddi á Patreksfirði, tóku starfsfólk af launaskrá samkvæmt undanþáguheimild sem Vinnumálastofnun veitti. Þetta heimildarákvæði gerir fólki kleift að skrá sig beint á atvinnuleysisbætur,“ segir Finnbogi.

Önnur fyrirtæki hafa að sögn Finnboga haldið starfsfólk á launaskrá. „Hraðfrystihúsið – Gunnvör sem er stærsta fyrirtækið í vestfirskum sjávarútvegi hefur náð að halda út einhverri starfsemi með vinnslu á eldisfiski og verktöku fyrir önnur eldisfyrirtæki. Fyrirtækið hefur einnig verið með sitt starfsfólk á námskeiðum og það er mjög virðingarvert framtak hjá þeim í Hnífsdal. Sömuleiðis hefur Íslandssaga á Suðureyri verið með sitt fólk á námskeiðum.“

Finnbogi segir að einu uppsagnirnar sem félagið hefur fengið inn á borð til sína eru uppsagnir hjá Klofningi á Barðaströnd. „Þær uppsagnir eru ekki tengdar sjómannaverkfallinu heldur hafa með erfiðar markaðsaðstæður í Nígeríu að gera.“

Eins og fram hefur komið er lítill gangur í viðræðum sjómanna og útvegsmanna. „Málið er komið í mjög sérstaka stöðu og það vekur mikla furðu að ríkisstjórnin segi það trekk í trekk að hún ætli ekki að koma að lausn deilunnar.“

Finnbogi segir að ríkið geti komið að málinu með öðrum hætti en með beinni lagasetningu á verkfallið. „Það er til dæmis sanngjörn krafa að ríkisvaldið viðurkenni rétt sjómanna á skattfrjálsum dagpeningum. Þeir eiga rétt á þeim eins og aðrir sem starfa fjarri heimilum sínum. Þetta yrði sennilega einn af þeim lyklum sem þarf að snúa til að leysa deiluna,“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson.

Smari@bb.is

DEILA