Ekki verður unað við frekari skerðingu innsiglingarinnar

Eldissvæði Arctic Sea Farm samkvæmt matsáætlun.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tekur undir umsögn hafnarstjórn um að ekki verður fallist á að eldiskvíar Arctic Sea Farm verði staðsettar á því svæði út af Arnarnesi sem lagt er til í matsáætluninni. Sú staðsetning myndi skerða aðkomu stærri skipa að Skutulsfirði og þrengja athafnasvæði þeirra, er í því sambandi aðallega átt við skemmtiferðaskip, flutningaskip og stærri olíuskip. Nú þegar eru eldiskvíar á Skutulsfirði sem skerða athafnarými og geta gert stærri skipum erfitt fyrir á akkerislægi. Bæjarstjórn segir að ekki verði unað við frekari skerðingu.

Bæjarstjórn telur að koma mætti í veg fyrir truflun á innsiglingu til Skutulsfjarðar ef umrætt svæði yrði fært að minnsta kosti lengd sína til suðausturs þannig að norðvestur mörk svæðisins sé í línu við Kirkjubólshlíð.

Bæjarstjórn ítrekar enn og aftur að afleitt sé að enga stefnumörkun stjórnvalda sé að finna um sjókvíaeldi á Vestfjörðum, fremur en annars staðar á landinu. Óheppilegt er að burðarþolsmat Ísafjarðardjúps skuli ekki liggja fyrir þegar leitað er umsagna um fiskeldisáform og verður til mikilla bóta þegar það verður gefið út en Ísafjarðarbær hefur upplýsingar um að matið sé hér um bil tilbúið.

„Rannsóknir á samlegðaráhrifum eldis og lífríkis í Ísafjarðardjúpi eru mikilvæg undirstaða í uppbyggingu fiskeldis við Djúp og skipulagningu þess og því er kallað eftir að stjórnvöld leggi fullan þunga í þann undirbúning sem nauðsynlegur er. Að frumkvæði sveitarfélaga á Vestfjörðum og Fjórðungssambands var unnin nýtingaráætlun fyrir Arnarfjörð sem vera mátti stjórnvöldum fordæmi. Það er því mjög miður að ríkisvaldið hafi ekki séð ástæðu til að samsvarandi skipulagsvinna færi fram á strandsvæði Ísafjarðardjúps, slík áætlun hefði auðveldað mjög framlagningu matsáætlana og gerð umsagna um þau,“ segir í umsögn bæjarstjórnar sem fagnar fyrirhuguðum áformum fiskeldisfyrirtækja um uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðardjúpi. Bæjarstjórn telur að fiskeldi muni styrkja undirstöður atvinnulífs í sveitarfélaginu og treysta tekjustofna Ísafjarðarhafna.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ítrekar einnig þá áskorun sína að að sveitarfélög ráði skipulagi strandsjávar út að 1 sjómílu út fyrir grunnlínu landhelginnar. Einnig kallar bæjarstjórn eftir því að sveitarfélög fái heimildir til gjaldtöku af þeim aðilum sem nýta svæði í strandsjó til fiskeldis.
Þessi umsögn tekur yfir fyrri umsagnir nefnda Ísafjarðarbæjar og dregur þær saman í eina.
Bæjarstjórn gerir að öðru leyti ekki athugasemdir við framkomna tillögu að matsáætlun.

smari@bb.is

DEILA