Bolvíkingar ósáttir við vinnubrögð Gísla Halldórs

Formaður bæjarráðs Bolungvíkurkaupstaðar gagnrýnir vinnubrögð Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, vegna hugmynda um sameiningu sveitarfélaga við Djúp. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að bjóða Súðavíkurhreppi til samstarfs um að kanna möguleika á sameiningu og verður sótt um fjárframlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til framkvæmdar slíkrar könnunar.

„Það kemur manni spánskt fyrir sjónir að þau tvö ætli að fara í einhverja sér vegferð. Það var búið að ákveða að funda þann 10. mars um samstarf sveitarfélaga við Djúp svo þetta kemur á óvart,“ segir Baldur Smári Einarsson, formaður bæjarráðs Bolungarvíkurkaupstaðar.

Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, sagði í samtali við bb.is að Bolungarvíkurkaupstað hafi verið boðið að borðinu, en hafi hafnað því. „Okkur var ekki beinlínis boðið,“ segir Baldur Smári um orð Örnu Láru. „Á óformlegum fundi kynnir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar ákveðið prójekt sem var fullmótað og við áttum að samþykkja. Þetta er verklag sem við getum engan veginn við sætt okkur við og er okkur algjörlega á móti skapi. Hvernig staðið var að þessu af hálfu bæjarstjórans á Ísafirði er sameiningu og auknu samstarfi ekki til framdráttar,“ segir Baldur Smári.

Hann segir að eftir þennan óformlega fund hafi verið ákveðið að setjast niður og ræða málin á ofangreindum fundi sem halda á þann 10. mars. „Ef mönnum er alvara með sameiningu og vilja vinna málin vel þá setjast bæjarfulltrúar niður og ræða um mögulega fleti á sameiningu áður en lengra væri haldið. Á þessum fundi var Gísli Halldór með allt tilbúið og við áttum einfaldlega að samþykkja það sem hann var búinn að gera.“

Baldur Smári segir að menn verði að horfa raunsætt á málin og átta sig á sínu lýðræðislega umboði. „Við vitum alveg hver hugur Bolvíkinga hefur verið til sameiningar, það er enginn í Bolungarvík að pressa á sameiningu og sameining yrði einfaldlega felld í kosningu að svo stöddu. Ég sé ekki tilganginn í því að fara í þessa vinnu þegar ég veit að þetta verður fellt. Þessi vinnubrögð bæjarstjórans eru ekki til þess fallin að skapa traust, en traust er það mikilvægasta í svona viðræðum,“ segir Baldur Smári sem er þó ekki afhuga sameiningu sveitarfélaganna. „Mín persónulega sýn er að einhvern tímann á næstur árum kemur sá dagur að við förum í að sameina sveitarfélögin, en menn verða að velja þann dag vandlega.“

smari@bb.is

DEILA