Áfram mikill hagvöxtur

Hag­stofa Íslands spá­ir 4,3% hag­vexti árið 2017 og um 2,5–3,0% ár­lega árin 2018–2022. Talið er að lands­fram­leiðsla hafi auk­ist um 5,9% árið 2016 og að fjár­fest­ing hafi auk­ist um 22,7% í fyrra. Hag­stofa Íslands hef­ur í dag gefið út end­ur­skoðaða þjóðhags­spá að vetri í ritröð sinni, Hagtíðind­um. Spá­in nær yfir árin 2016 til 2022.

„Mik­il um­svif eru í ís­lensk­um þjóðarbú­skap um þess­ar mund­ir en neysla, fjár­fest­ing og ut­an­rík­is­versl­un hafa verið í örum vexti und­an­far­in miss­eri. Nýj­ustu niður­stöður þjóðhags­reikn­inga sem spá­in bygg­ist á ná til þriðja árs­fjórðungs 2016,“ seg­ir í frétt Hag­stofu Íslands.

Einka­neysla er tal­in hafa auk­ist um 7% árið 2016 en gert er ráð fyr­ir að hún auk­ist um 5,9% árið 2017, 3,9% árið 2018 og um 2,5–2,9% á ári seinni hluta spá­tím­ans. Reiknað er með að sam­neyslu­vöxt­ur verði áfram hóf­leg­ur eða sem nem­ur 1,5% ár­lega.

„Öll skil­yrði hafa ýtt und­ir aukn­ingu neyslu und­an­far­in miss­eri, kaup­mátt­ur launa og ráðstöf­un­ar­tekj­ur hafa auk­ist mikið og gengi krón­unn­ar styrkst, olíu­verð verið lágt og ýmis aðflutn­ings­gjöld verið af­num­in. Því er spáð að þessi þróun verði svipuð á næst­unni, að kaup­mátt­ur auk­ist um­tals­vert og hækk­un ráðstöf­un­ar­tekna veiti svig­rúm fyr­ir enn meiri aukn­ingu neyslu,“ seg­ir í þjóðhags­spánni.

Fjár­fest­ing er tal­in hafa auk­ist um 22,7% árið 2016 og spáð er að hún auk­ist um 12,6% árið 2017 en úr henni dragi eft­ir það. Gert er ráð fyr­ir tals­verðri aukn­ingu íbúða­fjár­fest­ing­ar og op­in­berr­ar fjár­fest­ing­ar árin 2017 og 2018.

smari@bb.is

DEILA