Sjávarútvegurinn og ferðamenn samlegð eða samkeppni?

Guðrún Anna Finnbogadóttir

 Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi á Íslandi og verkfall sjómanna hefur staðið í á níundu viku án þess að mikið hafi gerst ákvað ég að taka saman nokkrar staðreyndir um sjávarútveginn og ferðaþjónustuna á Íslandi.

Af hverju spyrja væntanlega margir, en það er skemmst frá því að segja að báðar þessar atvinnugreinar eru orðnar okkur gríðarlega mikilvægar en fólki hættir til að tala um þær sem tvær aðskildar greinar. Það þarf þó ekki að kafa djúpt til að komast að því að þær eru algerlega óaðskiljanlegar í íslensku atvinnu- og mannlífi.

Samfélagið fyrr á öldum

Sjómenn hafa stundað sjóinn frá örófi alda og hafið hefur gefið og hafið hefur tekið. Síðustu tvær aldirnar hefur sjómennskan bætt lífskjör með þeim hætti að ekki eru mörg viðlíka dæmi í heiminum. Þessi hraði vöxtur og uppbygging í mjög harðbýlu landi hefði aldrei átt sér stað án þess að sjómenn og fjölskyldur þeirra hefðu lagt allt í sölurnar til að draga björg í bú.

Hvað varðar ferðamenn þá þóttum við mjög púkaleg fyrr á öldum á alþjóðamælikvarða og veittist okkur erfitt að bursta af okkur sveitamennskustimpilinn hjá erlendum þjóðum. Ferðamenn sem hingað komu áttu ekki orð yfir náttúrufergurðina en höfðu þó á orði að böð, hreinlæti og fágaðri framkomu mætti að ósekju setja í forgang þó fáum dyldist að hér fór gestrisið og vel innrætt fólk.

Staða sjávarútvegs

Ferðaþjónusta hefur svo verið að byggjast upp hægt og bítandi síðastliðin 20. ár en áður gekk illa að lokka erlenda gesti til landsins flugið var dýrt og landið erfitt yfirferðar.

Snúum okkur þá aftur að sjómennskunni og þróuninni þar. Fyrir tuttugu árum var nær allur fiskur frystur eða saltaður, settur í gám og fluttur með strandflutningaskipum frá öllum landshlutum til Reykjavíkur þar sem afurðum var safnað saman og sendar til útlanda. Íslenskur fiskur hefur alltaf haft á sér mjög gott orð sem hágæða fiskur en það er vinna að viðhalda góðu orðspori og krefst þess að fyrirtækin fylgist vel með nýjungum og tileinki sér allar breytingar á markaði.

Það eru margir þættir sem gera að sjávarútvegurinn stendur vel í alþjóðlegum samanburði. Fyrst og fremst má nefna áhersluna á gæði þar skiftir mestu máli, kæling, hreinlæti, vöruþróun og hraðir vinnsluferlar. Nýjasta tækni á sjó og landi hefur verið lykillinn að þeirri velgengni sem hefur átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi.

Hinsvegar hafa orðið stórstígar breytingar síðastliðin 20. ár og ekki er lengur nær eingöngu framleiddur frystur og saltaður fiskur heldur fluttur út ferskur fiskur í stórauknum mæli. En hvað þarf til að geta verið eins fjarri ferskfiskmarkaðnum og Ísland í rauninnni er en vera samt með sívaxandi ferskfiskútflutning og spila stórt hlutverk á þeim markaði í Evrópu og Bandaríkjunum. Þar kemur samlegð sjávarútvegs og ferðaþjónustunnar til sögunnar.

Fiskvinnslurnar eru dreyfðar um allt land. Til að geta flutt ferskan fisk til útlanda þarf fiskurinn að fara með flutningabíl daglega til Keflavíkur, svo hann sé kominn á völlinn að morgni. Lykillinn að því að senda 2-3 daga gamlan fisk til útlanda er þéttriðið net samgangna innanlands og til útlanda. Án bættra samgangna kæmust ferðamenn ekki til landsins né um landið okkar með góðu móti.

Samlegð fisk og ferðamanna

Til að þjóna öllum þeim ferðamönnum sem koma til landsins er nauðsynlegt að bjóða upp á hótel og veitingahús út um landið og það er ljóst að ef aðföng og afurðir í sjávarútvegi væru ekki uppstaðan í landflutningum yrði mjög dýrt fyrir ferðaþjóna og greiða raunkostnað við flutning aðfanga. Auk þess sem flutningsnetið væri líklega ekki eins þéttriðið og eins tíðar ferðir eins og raun ber vitni.

Snúum svo peningnum við, ferskur fiskur er fluttur út með skipum í gámum einu sinni í viku, en að stórum hluta er hann fluttur út með flugi og hefur fyrir vikið fengið nafnið „flugfiskur“ sem Gísla heitnum á Uppsölum lék mikil forvitni á að vita hvernig fiskur væri þessi „flugfiskur“ sem allir töluðu um.

Ferðamennirnir hafa streymt til landsins og það hefur skapað ótrúleg tækifæri til markaðssetningar á flugfiski. Í hvert sinn sem flugfélögin tilkynna um nýja áfangastaði fer fiðringur um fiskmarkaðs- og sölufyrirtækin sem hefja strax markaðssókn á nýjum mörkuðum. Auk þess sem tíðari ferðir á áður þekkta áfangastaði skapa líka ný tækifæri á þekktum mörkuðum. Án allra ferðamannanna hefði aukningin í flugfiski ekki orðið eins mikil og raun ber vitni.

Hagsmunir þessara útflutningsgreina hanga líka algerlega saman að öðru leyti. Það er mikið áhyggjuefni fyrir ferðaþjónustuna þegar krónan styrkist óeðlilega mikið vegna bólumyndunar á Íslandi, það sama á við um sjávarútveginn. Fiskurinn er greiddur í erlendum gjaldmiðli og það er erfitt að skýra hagsveiflur Íslands fyrir viðskiptavinum og því er styrking krónunar mikið áhyggjuefni.

Umræðan

Það sem veldur mér áhyggum er hinsvegar umræðan síðustu misserin. Það er alveg sama hvaða fréttir koma frá sjávarútvegsfyrirtækjunum um þessi hættumerki að sú umræða er kveðin niður með frasanum „ þessi helvítis sjávarútvegsmafía getur alveg tapað peningum, þeir eiga nóg af þeim.“ Hinsvegar gleymir fólk að á saman tíma og fæst minna fyrir afurðirnar vegna styrkingar krónunnar fá sjómenn lægra kaup því þeir eru á hlut, svar almennings við því er svolítið „ þeir eru hvort eð er á svo háu kaupi að það skiftir engu máli“.

Sú undarlega staða er því komin upp að samfélagið hefur í raun útilokað allar umræður um þennan stærsta atvinnuveg landsins sjávarútveginn, sem kom okkur úr moldarkofunum, með einhverskonar klisjum eða afneitun. Hinsvegar ef fiskveitingahúsaeigandi á Laugarveginum kemur í fréttirnar því hann getur ekki boðið upp á ferskan fisk sem rétt dagsins fyrir ferðamennina, gýs upp samúð og skilningur hjá landanum á stöðu mála. Gengi krónunnar má ekki ræða nema í sambandi við ferðmennsku allar umræður þar að lútandi varðandi sjávarútveg eru kurteislega slegnar út af borðinu.

Sjávarútvegsferðaþjónusta

Ferðaþjónustu tengd sjávarútvegi er mikilvægur þáttir í afþreyjingu ferðamanna og bera söfn landsins þess mikil merki, hvalasöfn, byggðasöfn og verbúðir um landið sem draga að sér ferðamenn auk hvalaskoðunar- og sjóstangveiðiferða.

Ferðamenn vilja sjá okkar aðal atvinnuveg til að skilja tilveru Íslendinga og hef ég sjálf farið með marga ferðamenn í gegnum minn vinnustað Odda hf á Patreksfirði sem er fiskvinnsla sem stendur fyrir fisk veiddan á línu, gæði og góða þjónustu. Finnst fólki það ótrúlegt og undravert hversu tengd við erum alþjóðamörkuðunum og hvernig við höfum skapað okkur sillu við sölu sjávarfangs í hinum stóra heimi.

Verum stolt yfir árangrinum sem hefur náðs í sjávarútvegi á Íslandi og hvernig okkur hefur tekist að nýta öll tækifærin sem aukin ferðaþjónusta hefur skapað en gleymum ekki að árangurinn þar er þéttofinn íslenskum sjávarútvegi og þeim grunnstoðum sem hann hefur skapað. Hvorutveggja byggir á sama grunninum auðlindinni Íslandi, samgöngum og dugnaði Íslendinga í að sjá og nýta sér ný tækifæri.

Sú deila sem nú hefur staðið í nær 9. vikur þarf að leysast, okkur kemur þetta öllum við og samningar þurfa að nást. Samningar nást því aðeins að allir aðilar hafi samningsvilja en ég sakna mest í allri umræðunni skilnings og stuðnings frá þjóðinni á því sem bæði sjómenn og sjávarútvegsfyrirtækin í landinu hafa áorkað. Það er lykillinn að áframhaldandi verðmætasköpun í öllum okkar útflugningsgreinum, bæði fiski og ferðamönnum, að við vinnum saman og samnýtum innviði til að efla íslenskt samfélag.

 

Guðrún Anna Finnbogadóttir

Sjávarútvegsfræðingur

DEILA