Ungt fólk vill hafa áhrif

Landsþing ungmennahúsa var haldið á Hólmavík um síðustu helgi. Ungt fólk á aldrinum 16-25 ára og starfsfólk ungmennahúsa komu víða að af landinu ásamt stjórn Samfés. Markmið landsþingsins var að skapa vettvang fyrir ungt fólk til að hittast, móta starfsemi ungmennahúsa landsins, skiptast á hugmyndum, efla samstarfið og ræða málefni ungs fólks á Íslandi og hvað hægt sé að gera til að bæta starfið og tryggja að öll ungmenni á aldrinum 16-25 ára hafi jafnan aðgang að ungmennahúsi í sinni heimabyggð.

Stjórn Samfés segir landsþingið hafi gengið vonum framar og þátttaka ungmennahúsa nokkuð góð, sér í lagi í ljósi þess að búið er að loka fimm ungmennahúsum í Reykjavík. Hrósar stjórnin ungmennunum í hástert og segir að þau hafi sýnt gott frumkvæði, meðal annars með því að skipa nefnd ungmenna sem ætla í samvinnu með Samfés að skipuleggja næsta landsþing.

Á landsþinginu var rætt hversu mikilvægt það er að taka vel á móti flóttafólki, koma í veg fyrir fordóma með kynningu og fræðslu og tryggja aðgengi fólks að námskeiðum og öðrum nauðsynlegum úrræðum. Segja ungmennin að bæta þurfi alla fræðslu um andlega heilsu ungs fólks á öllum skólastigum og að andleg veikindi verði viðurkennd, sérstaklega með aðkomu ríkisins með niðurgreiðslu á kostnaði. Ungmennin voru sammála um að bæta þurfi enn frekar alla fræðslu um vinnuréttindi ungs fólks og Barnasáttmálann þar sem margir unglingar viti ekki ef brotið er á réttindum þeirra. Einnig vilja þau að íslenska ríkið virði það að börn og unglingar eigi að koma að ákvörðunartöku í öllum málefnum sem snerta ungt fólk.

Dagskrá helgarinnar var fjölbreytt og tóku þátttakendur þátt í hópefli, fræðslu, umræðuhópum, smiðjum og skemmtilegum kvöldvökum. Hópurinn heimsótti Galdrasafnið og heitu pottana á Drangsnesi. Hjálmar Karlsson frá Rauða krossi Íslands og Anna G. Ólafsdóttir framkvæmdarstjóri Geðhjálpar héldu fyrirlestra um hjálparsíma Rauða krossins 1717 og herferðina Útmeða sem beinist að sjálfsvígum og sjálfsskaða.

Sammældust þátttakendur um að raddir ungs fólks skipti mjög miklu máli! Það vilji hafa áhrif og sé ekki sama um samfélagið og framtíð landsins.

annska@bb.is

DEILA